Viðskiptaráð Íslands segir nýtt frumvarp sem breyta á lögum um virðisaukaskatt vera mjög til bóta. Frumvarpinu er ætlað að draga úr reglubyrði smærri aðila til að auka skilvirkni og draga úr álagi á skattyfirvöld. Viðskiptaráð segir það vel til þess fallið að ná markmiðum sínum í umsögn þess til atvinnuveganefndar um lögin.

Viðskiptaráð vekur sérstaklega athygli á tveimur atriðum í frumvarpinu, annars vegar að ætlunin er að hækka veltumörk fyrir þá sem eru undanþegnir virðisaukaskattsskyldu í 2 milljónir króna úr 1 milljón eins og nú er. Hins vegar hækkun úr 3 milljónum í 4 milljónir á efri mörkum veltu fyrirtækja sem ráðherra er heimilt að rýmka greiðsluskyldur fyrir samkvæmt reglugerð. Núgildandi lög leyfa að sett sé slík reglugerð þar sem fyrirtæki með undir 3 milljóna króna veltu njóti lengra greiðslutímabils og geti notað annað greiðslufyrirkomulag.

Jafnframt hvetur Viðskiptaráð til að þessi ákvæði verði endurskoðuð enn á ný innan fárra ára svo markmið frumvarpsins haldist þar eð ákvæðin um hámarkfjárhæðirnar eru ekki vísitölutengd.