Stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja ákvað á fundi sínum seint í gærkvöldi að óska eftir því við Landsbankann að hann gerði formlegt tilboð í sjóðinn, að því er greint er frá í Morgunblaðinu.

Þess er vænst að tilboð liggi fyrir klukkan tvö í dag en Sparisjóðurinn hefur frest til klukkan fjögur í dag til að bæta eiginfjárstöðu sína. Að öðrum kosti mun Fjármálaeftirlitið grípa til aðgerða og skipa sjóðnum slitastjórn.

Stjórn Sparisjóðsins hefur á síðustu dögum átt í viðræðum við Landsbankann um þessa lausn á vanda sjóðsins en Landsbankanum er, vegna samkeppnissjónarmiða, ekki heimilt að taka sjóðinn yfir, ef hægt er að fá aðra kaupendur að borðinu sem tilbúnir eru til að reka sjóðinn áfram sem sjálfstæða fjármálastofnun.