Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson vilja færa opinbera markaðinn nær hinum almenna vinnumarkaði þegar kemur að ákvæðum um starfslok starfsmanna. RÚV greinir frá.

Vigdís og Guðlaugur hafa lagt fram lagafrumvarp sem auðveldar forstöðumönnum ríkisstofnana að ráða og segja upp starfsfólki, en opinberir starfsmenn njóta almennt meiri verndar en þeir sem á almennum vinnumarkaði starfa.

Ef segja á opinberum starfsmanni upp fyrir brot í starfi þarf t.a.m. að áminna hann fyrst, en um áminningar gilda strangar reglur. Er tilgangurinn sá að vernda starfsmenn fyrir óeðlilegum þrýstingi ráðamanna.

„Með þessu erum við að bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar sem bendir á að það er torvelt að gera starfslok,“ segir Vigdís, en hún og Guðlaugur telja núverandi kerfi óskilvirkt.

Þessu er Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, ósammála.

„Við vorum mörg mjög andvíg því sem þarna kom fram, og mér finnst fráleitt að færa réttarstöðu opinberra starfsmanna í það horf þar sem hún gerist verst á íslenskum vinnumarkaði,“ er haft eftir Ögmundi á vef RÚV.

„Það á að vera hægt að segja fólki upp störfum, að sjálfsögðu, en það á að gerast á málefnalegum forsendum, og það á ekki að veikja réttarstöðu fólks sjálfu sér til sjálfsvarnar.“