Stjórn Skipta ætlar hvorki að gefa upp hverjir eða hversu margir sækja um starf forstjóra Skipta. Starfið var auglýst laus til umsóknar á mánudag í síðustu viku og aftur um síðustu helgi. Umsóknarfrestur rennur út í dag.

Steini Loga Björnssyni, forstjóra Skipta, var sagt upp fyrir rúmri viku eða 12. september síðastliðinn og tók fjármálastjórinn Óskar Hauksson tímabundið við starfi hans. VB.is sagði frá því í tengslum við brotthvarf hans að forstjóraskiptin hafi legið í loftinu og að nýir stjórnarmenn sem settust í stjórn Skipta í byrjun árs hafi viljað koma Steini Loga frá og setja sinn mann inn í staðinn. Nafn Orra Haukssonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, hefur verið nefnt í því sambandi.

Þórður S. Óskarsson, framkvæmdastjóri Intellecta sem sér um ráðninguna, segir í samtali við VB.is eitthvað í að gefið verði upp hver verði ráðinn forstjóri Skipta. „Það fer eftir því hvað stjórnin vinnu þetta hratt eða við saman næstu vikur,“ segir hann.

Ekki náðist í Sigríði Hrólfsdóttur, formann stjórnar Skipta, við vinnslu fréttarinnar.