ÁTVR auglýsir nú eftir leiguhúsnæði í miðbænum í því skyni að loka Vínbúðinni við Austurstræti og færa á aðgengilegri og hentugri stað. Svæðið sem er tilgreint í útboðslýsingu afmarkast af Snorrabraut, Hverfisgötu, Tryggvagötu, Geirsgötu og til sjávar í norður.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR segir endanlega ákvörðun þó ekki hafa verið tekna um tilfærsluna. „Það fer bara eftir því hvað okkur býðst, við munum leggja mat á það.“

Í útboðslýsingu er meðal annars gerð krafa um gott aðgengi fyrir flutningabíla og með almenningssamgöngum, greiða umferð og næg bílastæði bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk, sem helst megi sérmerkja búðinni. Leigutími er allt að 10 ár.

„Austurstrætisbúðin er óhentug. Hún er á tveimur hæðum, við erum með lagerinn niðri, og svo er bara mjög erfitt um flutninga til og frá búðinni,“ segir Sigrún. Staðsetningin í hjarta miðborgarinnar við Austurvöll sé vissulega að mörgu leyti heillandi, en hentugra húsnæði muni á móti bjóða upp á að gera betur í þjónustu við viðskiptavini.

Húsnæðinu sem leitað er eftir er sagt verða skipt í um það bil 2/3 verslunarsvæði og 1/3 lager og starfsmannaaðstöðu. Skilyrðin í heild sinni eru þau að húsnæðið sé á vel skilgreindu verslunarsvæði, liggi vel við almenningssamgöngum, umferð að og frá því sé greið, það sé á jarðhæð, bjóði upp á að vöruhurð opnist beint á bak- eða hliðarsvæði, góða aðkomu og næg bílastæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk, helst um 20 sem megi sérmerkja Vínbúðinni, gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða, góð aðkoma fyrir flutningabíla, rýmið sé sem næst rétthyrnt og súlur, veggir eða annað hamli ekki yfirsýn um verslunarhluta, og að það fullnægi kröfum opinberra eftirlitsstofnana.

Fyrirspurnatíma útboðsins lýkur 29. október, svarfrestur er til 1. nóvember og tilboðsfrestur er til 5. nóvember.