Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lýst stríði á hendur matsfyrirtækjum og hefur nú lagt til að við einstakar kringumstæður verði hægt að afnema lánshæfiseinkunnir ríkja sem eiga við efnahagserfiðleika að stríða.  Frá þessu greinir Financial Times og samkvæmt tillögunni er það Esma, fjármálaeftirlit ESB, sem mun hafa valdið til þess að kippa lánshæfiseinkunnum úr sambandi. Sömuleiðis á Esma að geta þvingað markaðsaðila til þess að skipta um matsfyrirtæki ef svo ber undir.

Matsfyrirtækin hafa verið áberandi að undanförnu og m.a. lækkað lánshæfi Ítala og Spánverja.

Eins og nærri má geta þykir æðstu mönnum á fjármálamarkaði þessar tillögur ekkert sérlega góðar og segja þeir þær ópraktískar að sögn FT.