Mark Carney, seðlabankastjóri í Bretlandi, ætlar að beita sér fyrir því að íbúðaverð hækki ekki óeðlilega mikið svo eignabóla myndist ekki á fasteignamarkaði. Breska dagblaðið Guardian fjallar um málið á vef sínum og segir George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, taka undir með seðlabankastjóranum.

Blaðið segir fasteignaverð hafa hækkað um 0,9% í þessum mánuði og hafi það bæst við 0,7% hækkun í ágúst. Þetta er talsvert meiri hækkun en gert var ráð fyrir en meðalspá Reuters hljóðaði upp á 0,5% hækkun fasteignaverðs á milli mánaða. Guardian segir útlit fyrir að verðið muni halda áfram að hækka fram að áramótum og eitthvað inn í næsta ár.