Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla.

Þar er lagt til að uppsögn verði skrifleg, rökstudd og málefnaleg og miðast við mánaðamót. Fyrir brot gegn því megi dæma launþegum miskabætur.

Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að síðustu 10-15 árin hafa verið ár einkavæðingar og frelsis í viðskiptum. „Þjóðfélagsgerð okkar hefur tekið stórstígum breytingum. Því miður er það svo að auknu frelsi hefur að bestu manna yfirsýn ekki fylgt ábyrgð. Með frumvarpi þessu er leitast við að sporna gegn ábyrgðarlausu frelsi við uppsagnir og einkavæða ábyrgðina,“ segir í greinargerðinni.

Þar er einnig bent á að til hliðsjónar við mat á fjárhæð miskabóta verði meðal annars að horfa til starfsaldurs, til möguleika starfsmanns á að fá annað starf, til uppsagnarástæðna og rökstuðnings.