Orka náttúrunnar hyggst meira en tvöfalda fjölda hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla og velja nýjum stöðvum stað þannig að hringnum um Ísland verði lokað og hægt verði að fara allan hringveginn á rafmagnsbíl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. ON mun líka setja upp hefðbundnar hleðslustöðvar meðal annars þar sem hraðhleðslustöðvar eru fyrir. Fyrirtækið fékk hæsta styrk sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitti til verkefna af þessu tagi nú laust fyrir áramót.

Styrkurinn hljóðaði upp á 57,1 milljón króna og er féð eyrnamerkt uppbyggingu 14 nýrra hraðhleðslustöðva og fjögurra hefðbundinna hleðslustöðva. Helmingur kostnaðarins fer í það að setja stöðvarnar sjálfar upp. „Á næstu árum hyggst ON setja upp enn fleiri hefðbundnar stöðvar en styrkurinn nær til, á eigin vegum og í samstarfi við aðra,“ segir í tilkynningu frá ON.

Haft er eftir Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra ON, að ON þakkar það traust til þeirra sem þessi styrkur frá ráðuneytinu er til marks um. „Við Íslendingar vinnum allt okkar rafmagn úr endurnýjanlegum orkulindum og ekkert land í heiminum hentar betur fyrir rafbíla en einmitt Ísland. Vegalengdir hér eru stuttar miðað við mörg lönd og með því að losa okkur við bensín og dísilbíla getum við lagt nokkuð þungt lóð á vogarskálar loftslagsmála. Við það má svo bæta þeim kosti að þjóðin mun spara sér mikla peninga í innflutningi á jarðefnaeldsneyti, peninga sem nýta má með betri hætti. Og það er ekki eftir neinu að bíða, nú þegar eru komnir rafbílar á markaðinn af ýmsum gerðum sem falla vel í kramið hjá almenningi,“ bætir hann við.