Saif Bin Ghelaita, tækni- og þróunarráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna, segir að 5G-tæknin muni koma til með að lækka kolefnisspor þjóðarinnar á komandi árum.

Fáar þjóðir í heiminum menga jafn mikið og furstadæmin en kolefnisspor á hvern íbúa er í kringum 25 tonn á ári og er 1,8 bíll skráður á hvern akandi einstakling. Það búa 9,3 milljónir í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en þjóðin mengar engu að síður meira en Víetnam, Argentína og Pakistan.

Ráðherrann lét orðin falla við opnun á alþjóðlegu fjarskiptainnviðaráðstefnunni sem fer nú fram í Dubai. Blaðamaður Viðskiptablaðsins er staddur á þeirri ráðstefnu en þar er verið að kynna næstu kynslóð 5.5 (5.5G) farnetskerfi og möguleikana sem það býður upp á.

Sameinuðu arabísku furstadæmin voru meðal fyrstu þjóða til að koma fyrir 5G netkerfi og þjónustar það nú 97% af þjóðinni. Að mati Saif er mikilvægt fyrir furstadæmin að nýta 5G tæknina í umhverfisskyni en COP28 ráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður meðal annars haldin í Dubai í vetur.

„Þessi tækni hefur nú þegar hjálpað okkur við að minnka kolefnisspor okkar með innleiðingu snjallhúsa. Samvinna er lykillinn að því að nýta alla möguleika þessarar tækni,“ segir Saif.

Örsök og mögulegar lausnir

Ein helsta orsök mengunar í furstadæmunum snúa að landafræði en veðurskilyrði þjóðarinnar reynast vera stór vegatálmi í baráttunni við gróðurhúsaáhrif. Mikill raki, hiti og sandstormar gera það að verkum að mengunarefni festast í andrúmsloftinu. Það flýtir einnig fyrir afsöltun þar sem sjávarsalt blandast saman við agnúða.

Í Furstadæmunum má einnig finna Dubai Industrial City, iðnaðarhverfi sem hýsir meira en 200 verksmiðjur og önnur iðnaðarfyrirtæki. Ofan á það reiða íbúar sig mikið á bíla þegar kemur að samgöngum og loftkælingu þegar kemur að þægindum.

Á ráðstefnunni hafa sérfræðingar meðal annars verið að skoða möguleika þess að nýta 5G tækni til að framkvæma tæknibreytingar á innviðum eins og að minnka orkusóun með því að slökkva sjálfkrafa á vélum sem eru ekki í notkun og stuðla að þróun svokallaðra snjallhúsa og hverfa.