„Nei við erum ekki vínbúð. Og svo sannarlega ekki Vínbúðin (ÁTVR). En fyrir Alþingi liggur nú frumvarp sem, verði það að lögum, mun afnema einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis. Venjulegum verslunum, hvort sem þær eru stórar matvöruverslanir eða litlar krúttlegar sérvöruverslanir verður gert heimilt að selja áfengi.“

Þetta segir á nýrri vefsíðu, Vínbúðin.com , sem litið hefur dagsins ljós. „Vínbúðin.com er rekin af áhugamönnum um aukið verslunarfrelsi á Íslandi,“ segir á síðunni, en ekki er tilgreint nánar hverjir standa að baki henni. Á vefsíðunni er lýst yfir stuðningi við frumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, sem nú liggur fyrir Alþingi. Frumvarpið miðar fyrst og fremst að því að afnema einkarétt ríkisins til smásölu á áfengi.

Telja úrval aukast og verð lækka

Á síðunni er að finna umfjöllun um frumvarpið og ætlaðar afleiðingar þess verði það að lögum. Eru þar meðal annars færð rök fyrir því að úrval kunni að aukast með frjálsari löggjöf og ekki sé ástæða til þess að verð á áfengi muni hækka vegna aukinnar samkeppni og lægri álagningar. Þá er einnig farið yfir lýðheilsusjónarmið og önnur atriði sem hafa verið nefnd í tengslum við frumvarpið. Kemur meðal annars fram að Finnar, Íslendingar og Svíar séu líklegastir til að hafa ofneytt áfengis undanfarna 30 daga innan OECD, en í þessum löndum fer ríkið með einkarétt á smásölu áfengis.

Einnig má finna umfjöllun um hvar málið er statt í augnablikinu, en frumvarpið bíður þess nú að allsherjarnefnd hleypi því til lýðræðislegrar meðferðar í þinginu. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er hins vegar ekki ljóst hvort málið komist úr nefndinni í ljósi þess að meirihluti nefndarmanna hefur lýst andstöðu sinni við það. Guðbjartur Hannesson, sem á sæti í nefndinni, lýsti því til að mynda yfir að hann vildi ekki að það færi til atkvæðagreiðslu á Alþingi og muni beita sér gegn því að það fari úr nefndinni.

Þá er einnig tíunduð afstaða hvers þingmanns til málsins þar sem vísað er til könnunar sem Viðskiptablaðið framkvæmdi í lok síðasta árs . Er gestum síðunnar einnig boðinn sá möguleiki að skora á einstaka þingmenn sem hafa ekki tekið afstöðu til frumvarpsins eða munu leggjast gegn því.