Bílaumboðið Askja hefur lækkað verð á mest seldu Kia rafbílunum, EV6 og Niro, um að meðaltali 850 þúsund krónur eftir að samkomulag þess efnis náðist við bílaframleiðandann. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Lækkandi framleiðslukostnaður og sterk markaðshlutdeild Kia á Íslandi eru sagðar grundvallarforsendur verðlækkunarinnar. Suður-Kóreska bíltegundin var sú þriðja mest selda í fyrra með 10% markaðshlutdeild og sú fimmta mest selda á rafbílamarkaðnum.

Að meðaltali lækkaði EV6 um 10,8% eða 900 þúsund krónur en Niro um 8% eða 800 þúsund. Að meðtöldum 900 þúsund króna styrk Orkustofnunar er EV6 því orðinn 480 þúsund krónum ódýrari en fyrir áramót og Niro 380 þúsund, þrátt fyrir að undanþága rafbíla frá virðisaukaskatti upp að 5,5 milljónum – sem jafngilti ríflega 1,3 milljóna króna afslætti fyrir alla bíla yfir því verði – hafi verið afnumin á nýju ári.

Nýir bílar lækka í verði bæði milli mánaða og ára

Kia eru ekki einu nýju bílarnir sem hafa verið að lækka í verði. Í nýjustu mælingu vísitölu neysluverðs sem birt var í morgun var undirliðurinn nýir bílar sá sem mest áhrif hafði til lækkunar, þótt lítil væru, eða 0,06%.

Mælt verð nýrra bíla lækkaði um 0,9% milli mánaða og hefur nú lækkað um 0,7% síðastliðna 12 mánuði sem jafngildir 7% lækkun á föstu verðlagi. Verð Kia rafbílanna var lækkað í síðustu viku en verðmælingar fyrir þennan mánuð voru framkvæmdar í þarsíðustu viku og því hafa aðrar bíltegundir verið á bak við hina mældu lækkun.

„Sjáum strax góð viðbrögð“

„Við erum ótrúlega ánægð með jákvæð viðbrögð frá framleiðanda, nú þegar hafa verðlistar og verð í vefsýningarsal verið uppfærð, þau tóku gildi fyrir helgi og við sjáum strax góð viðbrögð,“ er haft eftir Kristmanni Frey Dagssyni sölustjóra Kia í tilkynningunni.

EV6 var 8. mest seldi rafbíll landsins í fyrra með 210 nýskráningar eftir að hafa verið valinn bíll ársins 2022 hér á landi, en Niro vermdi 6. sætið með 243 eintök. Ríflega fjórða hver þeirra 2 þúsund Kia sem nýskráðar voru í fyrra voru hreinir rafbílar, en þar af voru 86% af áðurnefndum tveimur tegundum.

Alls selur Askja fjóra hreina rafbíla frá Kia í dag. Auk þeirra tveggja sem þegar hafa verið nefndir eru það smábíllinn e-Soul, fyrsti hreini rafbíll framleiðandans sem hefur nú verið á markaði í áratug, og sá nýjasti, jeppinn EV9, en fyrsti slíki bíllinn var nýskráður hér á landi í nóvember í fyrra.

Kia hyggst framleiða 15 gerðir rafbíla fyrir árið 2027 að því er segir í tilkynningunni. Næstur á markað verði EV3 sem sagður er væntanlegur til landsins næsta vetur.