Söluvernd er ný trygging sem Vátryggingafélag Íslands er að setja á markað og bætir almennt fjártjón seljanda fasteignar vegna skaðabótakrafna sem fram kunna að koma af hálfu kaupanda vegna galla á fasteigninni. Söluvernd hefur reynst vel víða erlendis og full þörf er einnig fyrir tryggingu af þessu tagi hér á landi að mati VÍS því fyrirspurnum og málarekstri vegna gallamála fari stöðugt fjölgandi

Í fréttatilkynningu VÍS segir að söluvernd byggi á lögum um fasteignakaup og tekur VÍS að sér að greiða skaðabótakröfu á hendur seljanda fasteignar ef umkvörtun kaupanda telst galli í skilningi laga um fasteignakaup og er tryggingin því bæði til hagsbóta fyrir seljendur og kaupendur.

Iðgjald er reiknað sem hlutfall af brunabótamati eignar og gildir vátryggingin í fimm ár frá afhendingardegi fasteignarinnar samkvæmt kaupsamningi en það er sá tími sem seljandi er ábyrgur vegna leyndra galla, skv. lögum um fasteignakaup.

Hámarks vátryggingafjárhæð er 35 milljónir króna. Lágmarkstjón sem bætt er nemur 50 þúsund krónum og eru engar bætur greiddar ef krafan nær ekki þeirri upphæð.

VÍS tekur yfir málsmeðferð vegna galla sem fram kunna að koma, greiðir skaðabótakröfu á hendur seljanda og í fæstum tilfellum mun kaupandi þurfa að leita réttar síns fyrir dómstólum með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn.

Söluvernd nær jafnt til sölu sérbýlis, íbúða í fjölbýlishúsum, sérhæða og heilsárs sumarhúsa en tryggingin nær hins vegar ekki til nýbygginga, atvinnuhúsnæðis, fasteigna sem seldar eru innan fjölskyldu, eða ósamþykktra íbúða.

VÍS ætlar að leita eftir í samstarfi við fasteignasölur og munu seljendur íbúðarhúsnæðis geta gengið frá tryggingunni um leið og þeir setja eign sína á sölu.