„Fólk er fært til innanhúss og það þarf að finna hverri deild sinn stað,“ segir Björn Friðrik Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi VÍS. Fyrirtækið kynnti í dag nýtt skipulag sem tekur gildi um mánaðamótin. Það á að auka skilvirkni, sveigjanleika og gæði í þjónustunni. Liður í því er að skipta upp þeim deildum sem hafa þjónustað bæði einstaklinga og fyrirtæki. Ein deild mun framvegis einbeita sér að einstaklingum og önnur að fyrirtækjum.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, segir í tilkynningu þetta í samræmi við stefnu VÍS um að einfalda starfsemina. „Með nýju skipulagi verðum við enn betur í stakk búin til að mæta þörfum viðskiptavina og auka þannig ánægju þeirra af samskiptum við okkur. Það er mat okkar að með breytingunni muni samkeppnishæfni félagsins vaxa til lengri tíma, bæði viðskiptavinum og VÍS til hagsbóta.“

Skipan framkvæmdastjórnar VÍS verður óbreytt en verkaskipting framkvæmdastjóra tekur mið af áherslubreytingum.

Fram kemur í tilkynningu að VÍS er stærsta tryggingafélag landsins. Fyrirtækið er skráð í Kauphöll Íslands og er í eigu um 1.300 hluthafa. VÍS starfrækir 40 þjónustuskrifstofur víðsvegar um land og starfa 210 manns hjá fyrirtækinu. Hlutverk VÍS er ÞJÓNUSTA, VERND og FORVARNIR og býður fyrirtækið alhliða tryggingalausnir fyrir einstaklinga, fjölskyldur, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir.