Vísitala neysluverðs hækkaði um 5,5% frá apríl 2005 til jafnlengdar í ár, segir Hagstofa Íslands. Verðbólgan hefur aukist síðustu mánuði og er helsta ástæða þess hækkanir á íbúðarhúsnæði og á eldsneytisverði. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,4%.

Hækkun húsnæðisverðs og verðhækkanir á eldsneyti hafa öðru fremur knúið
verðbólguna áfram síðustu tólf mánuði, segir Hagstofa Íslands. Húsnæði hefur hækkað um 12,3% (vísitöluáhrif 2,66%) og verð á bensíni og olíu um 18,0% (1,07%).

Verð á þjónustu hefur hækkað vísitöluna um tæplega 1%. Þar af hefur verð á opinberri þjónustu hækkað um 1,5% (0,11%) og verð á annarri þjónustu um 3,7% (0,81%). Verð á mat og drykkjarvöru hefur hækkað um 6,1% (0,47%) samanborið við 2,1% verðlækkun árið áður. Verð lækkaði mjög á fyrri hluta síðasta árs vegna öflugrar samkeppni en hefur þokast upp á við síðustu mánuði.

Gengisþróun íslensku krónunnar hefur töluverð áhrif á vísitölu neysluverðs en frá apríl 2005 til jafnlengdar í ár hefur gengisvísitalan hækkað um 12,4%. Frá apríl til desember lækkaði hún um 4,5% en hefur frá desember hækkað um nær 20%. Gengi krónunnar hefur lækkað sem þessu nemur. Mismunandi er, eftir aðstæðum á markaði, að hve miklu leyti og hve hratt gengisbreytingar koma fram í vísitölu neysluverðs.

Verðhækkanir undanfarið á bensíni og nýjum bílum má að töluverðu
leyti rekja til gengisbreytinga en að auki er heimsmarkaðsverð á hráolíu afar hátt, segir Hagstofa Íslands.