Flestar vísitölur lækkuðu í Asíu í dag og hafa ekki verið lægri í tvo mánuði. Lækkunin fylgdi á eftir lækkun asískra hlutabréfa sem hlaust af miklu framboði þeirra á markaði á sögn fréttavefs Bloomberg.

Stærsti banki í Ástralíu, National Australia, lækkaði töluvert í kjölfar yfirlýsingar um að bankinn yrði hugsanlega að yfirtaka skuldir Rams Home Loans Group. Verð á hlut í Merchants bankanum í Kína hefur ekki verið lægra í tvær vikur og er lækkunin rakin til hægari vaxtar í Kína vegna eftiráhrifa kreppunnar á bandarískum húsnæðismarkaði.

MSCI Asia Pacific vísitalan lækkaði um 0,7% í Tókýó og hefur ekki verið lægri, 153,7 stig, síðan um miðjan september og Topix lækkaði um 0,1%. Hang Seng í Hong Kong lækkaði um 2,3%, Standard og Poor í Ástralíu lækkaði um 0,8% en Nikkei 225 í Japan bætti við sig 0,3% í dag.

Samkvæmt því sem segir á fréttavef Bloomberg hefur lækkunin í Japan undanfarið þurrkað út alla hækkun hlutabréfa þar í landi á árinu og markaðir í Japan því á núll punkti hvað það varðar.