Í Viðskiptaþættinum á Útvarpi Sögu í dag, var fjölbreytt efni að vanda. Í upphafi þáttarins var rætt við Helgu Valfells hjá Útflutningsráði. Þessa dagana eru starfsmenn Útflutningsráðs og Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins sem starfa erlendis á Íslandi - íslenskum fyrirtækjum til ráðgjafar - en fjölmörg spennandi viðskiptatækifæri er að finna á hinum ólíkustu markaðssvæðum. Það borgar sig að hlusta.

Í þættinum var einnig rætt við eiganda McDonalds á Íslandi, Jón Garðar Ögmundsson, um hvernig baráttan á markaðnum gangi þessa dagana. Sjónvarpsstjóri Skjás eins, Magnús Ragnarsson, leit í heimsókn og fór yfir stöðu og horfur á sjónvarpsmarkaðnum. Botninn í þáttinn var síðan sleginn með því að rætt var við formann SVFR, Bjarna Ómar Ragnarsson, en SVFR hefur nú tryggt sér leigu á Norðurá til ársins 2010, en um tíma leit út fyrir að áin færi í útboð.

Þátturinn er sendur út á Útvarpi Sögu FM 99,4 og verður endurfluttur klukkan eitt í nótt.