Í aprílmánuði voru fluttar út vörur fyrir 37,5 milljarða króna og inn fyrir 44,4 milljarða króna fob (47,9 milljarðar króna cif). Vöruskiptin í apríl voru því óhagstæð um 6,9 milljarða, að því er fram kemur í frétt á vef Hagstofu Íslands. Til samanburðar voru vöruskiptin í aprílmánuði í fyrra hagstæð um 3,8 milljarða króna á gengi hvors árs.

Fyrstu fjóra mánuði ársins 2014 var 2,4 milljarða króna afgangur á vöruskiptum við útlönd. Fluttar voru út vörur fyrir 173,9 milljarða króna á tímabilinu en inn fyrir 171,5 milljarða króna fob (184,8 milljarða króna cif). Til samanburðar voru vöruskiptin hagstæð um 30,5 milljarða fyrstu fjóra mánuði síðasta árs. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 28,1 milljarði króna lakari en á sama tíma árið áður.

Fyrstu fjóra mánuði þessa árs voru iðnaðarvörur 50,7% alls útflutnings en sjávarafurðir 42,9%.