Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hyggst fjárfesta milljarði Bandaríkjadollara, eða um 138 milljörðum íslenskra króna, í innviðauppbyggingu í Kólumbíu á næstu fimm árum, í kjölfar innreiðar dótturfélags Novator, fjarskiptafélagsins WOM, á fjarskiptamarkað þar í landi. Þetta kemur fram í umfjöllun Reuters .

Novator lagði grunn að innreið WOM á kólumbíska fjarskiptamarkaðinn eftir að Novator eignaðist meirihluta fjarskiptafélagsins Avantel fyrir ótilgreinda fjárhæð, líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í sumar.

Fjárfestingin verður nýtt til þess að setja upp yfir átta þúsund fjarskiptasenda og byggja upp fjarskiptakerfi WOM, sem mun koma 675 dreifbýlissvæðum í samband, samkvæmt tilkynningu Novator. Áætlað er að fjárfestingin skapi 2.500 störf, og leiði auk þess til 5.000 tengdra starfa.

Chris Bannister, forstjóri WOM í Kólumbíu, segir farsímaiðnaðinn í Kólumbíu staðnaðan og segir landið þurfa fjórða fjarskiptafyrirtækið til að knýja breytingar og auka aðgengi allra Kólumbíubúa að fjarskiptaþjónustu. Bannister hefur leitt vinnuna við uppbyggingu WOM í Kólumbíu frá því í upphafi árs, en áður var hann forstjóri WOM og Play.

WOM, sem fyrir er með þjónustu á Íslandi, í Póllandi og Síle, mun keppa á markaði 66,4 milljóna farsímanotenda þar sem fjarskiptafyrirtækið Claro er í ráðandi stöðu. Movistar og Tigo keppa einnig á kólumbíska fjarskiptamarkaðnum.