„Það gefur augaleið að þessi sniðganga ríkisins hefur valdið tjóni og næsta skref í málinu er að meta það tjón,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Wow air, í samtali við Fréttablaðið .

Kærunefnd útboðsmála hefur lagt fyrir fjármálaráðuneytið að bjóða út innkaup á flugfarmiðum til og frá Íslandi, en það var gert í framhaldi af kæru Wow air vegna kaupa ríkisins á farmiðum af Icelandair án útboða. Páll Rúnar segir í samtali við Fréttablaðið að úrskurður nefndarinnar staðfesti að útboðsskylda hafi verið til staðar.

„Hér hefur hundruðum milljóna verið ráðstafað árlega af ríkinu án útboðs. Það eru að meginstefnu tveir aðilar á þessum markaði. Annar þeirra, sem er almennt ódýrari og stundvísari, fékk því sem næst ekkert af þessari veltu á meðan allt þetta fé rann til samkeppnisaðilans,“ segir Páll Rúnar.

Segir hann það gefa augaleið að sniðganga ríkisins hafi valdið fyrirtækinu tjóni og næsta skref í málinu sé að meta það.