Yngvi Örn Kristinsson, Ívar Guðjónsson og Steinþór Gunnarsson eru meðal þeirra sjö einstaklinga sem hafa verið yfirheyrðir hjá Embætti sérstaks saksóknara í dag í tengslum við rannsókn á málum tengdum Landsbankanum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Fyrr í dag var greint frá því að þau Sigurjón Þ. Árnason og Elín Sigfúsdóttir voru meðal þeirra sem sérstakur saksóknari yfirheyrir. Alls voru sjö einstaklingar færðir til yfirheyrslu. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum er enginn núverandi starfsmaður á meðal þeirra.

Yngvi Örn var framkvæmdastjóri verðbréfasviðs bankans fyrir hrun. Hann hefur unnið töluvert fyrir núverandi ríkisstjórn, meðal annars að lausn á skuldavanda heimilanna sem kynnt var síðla á síðasta ári. Þá var Yngvi Örn einn þeirra sem sótti um stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs á síðasta ári en umsóknarferlið dróst á langinn vegna deilna innan stjórnar sjóðsins um ráðninguna. Auglýsa þurfti um stöðuna tvisvar og svo fór að Sigurður Erlingsson var ráðinn í starfið.

Ívar Guðjónsson var forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans fyrir hrun og Steinþór Gunnarsson gegndi starfi forstöðumanns verðbréfamiðlunar.