Liv Bergþórsdóttir, forstjóri ORF Líftækni, ræðir um nýja vöru sem fyrirtækið er að þróa, MESOkine, í viðtali í tímaritinu Frjálsri verslun sem kom út á dögunum. Um er að ræða dýrafrumuvaka sem nýtast við stofnfrumuræktun á kjöti.

Stofnfrumuræktun kjöts er ung atvinnugrein sem enn er á nýsköpunar- og þróunarstigi, en hún gæti gjörbylt matvælaframleiðslu í heiminum þegar fram líða stundir.

„Ég sé fyrir mér að þessi atvinnugrein verði mjög stór í framtíðinni, vegna þess að hún kemur til með að leysa svo stór vandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir. Fólksfjölgun í heiminum skapar gríðarlegar áskoranir í matvælaframleiðslu á heimsvísu. Mannkynið telur í dag tæplega átta milljarða, en gæti orðið nær tíu milljörðum eftir þrjátíu ár. Það þarf því sífellt að brauðfæða fleira fólk, en á sama tíma þarf að huga að umhverfis- og loftslagsmálum, matvælaöryggi og dýravelferð. Stofnfrumuræktað kjöt mun hjálpa heiminum að mæta þessum krefjandi áskorunum," segir Liv.

150 nautgripir standi undir heimsframleiðslu

Liv nefnir sem dæmi að hægt verði að framleiða kjöt í 175 milljónir hamborgara úr stofnfrumum úr einum nautgrip, en til að framleiða sama magn hamborgara úr hefðbundnu kjöti þurfi að slátra 440 þúsund nautgripum.

„Það er talið að ein stofnfruma geti gefið af sér um tíu þúsund kíló af kjöti og að aðeins þurfi stofnfrumur úr um það bil 150 nautgripum til að framleiða allt það nautakjöt sem nú er neytt í heiminum á ári," segir Liv.

Stofnfrumuræktað kjöt mun þannig geta dregið úr þörf á slátrun dýra, auk þess að ræktunin er mun umhverfisvænni en hefðbundin kjötframleiðsla.

„Það þarf um 85 til 98 prósentum minna land undir kjötræktun, vatnsnotkun er 82 til 96 prósentum minni, losun gróðurhúsalofttegunda er um 78 til 96 prósentum minni og kjötræktinni fylgir töluvert minni orkunotkun."

Innreið kjötræktar aðeins tímaspursmál

Ráðgjafarfyrirtækið Kearny áætlar í spá sinni um þróun kjötiðnaðar að árið 2025 verði hefðbundið kjöt með 90% markaðshlutdeild og svokallað plöntukjöt, á borð við Beyond Meat, með 10% hlutdeild.

Samkvæmt spánni mun stofnfrumuræktað kjöt hins vegar verða komið með 10% hlutdeild á kjötmarkaði árið 2030 og plöntukjöt með 18%. Tíu árum síðar er áætlað að kjötrækt verði með 35% markaðshlutdeild, plöntukjöt með 25% hlutdeild og hefðbundin kjötframleiðsla verði komin niður í 40% hlutdeild.

Heimsmarkaður með kjöt
Heimsmarkaður með kjöt

Liv segir stutt vera síðan kjötrækt var aðeins á hugmyndastigi, en að nú greinin sé sannarlega komin á tilrauna- og þróunarstig og því aðeins tímaspursmál hvenær uppskölun geti hafist.

„Þetta er ekki eingöngu spurning um að getan til framleiðslu og gæði séu til staðar, varan þarf að vera á samkeppnishæfu verði, regluverkið þarf að styðja við þróunina og það þarf einnig að vinna traust neytenda á vörunni," segir Liv og bendir jafnframt á að mjög erfitt sé að spá fyrir um þróun til framtíðar.

„Það er alltaf mjög erfitt að spá fyrir um framtíðina. Max Elder, hjá Food Futures Lab innan Institute for the Future, hefur sagt að hann hafi áhyggjur af því að sprotafyrirtæki á kjötræktarmarkaði ofmeti tímalínuna til þess að komast á markað, en vanmeti hugsanleg langtímaáhrif stofnfrumuræktaðs kjöts. Þetta gæti gerst hraðar eða hægar. Mögulega mun taka lengri tíma að koma stofnfrumuræktuðu kjöti á markað og mögulega verða áhrifin mun meiri en spáin gerir ráð fyrir, en það er ómögulegt að segja," segir Liv.

Nánar er fjallað um málið tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .