Hún var eitthvað skrýtin fréttin, sem DV sagði í fyrri viku um að kalla hefði þurft út víkingasveit að gistiheimili Útlendingastofnunar á Ásbrú til þess að skakka leikinn vegna hnífabardaga milli hælisleitenda, sem þar gistu. Fréttin var höfð eftir Víkurfréttum, en lykilatriði í henni voru röng. Þarna ræddi sumsé ekki um hælisleitendur eða gistiheimili Útlendingastofnunar. Sem þó var einmitt fréttapunkturinn, sem margir hentu á lofti. Ritstjóri dv.is leiðrétti þetta þegar upp komst, harmaði mistökin og baðst afsökunar.

DV urðu þarna á alvarleg mistök með því að vitna í frétt án þess að sannreyna efni hennar með sjálfstæðum hætti. Það eiga fjölmiðlar auðvitað almennt að gera (vilji þeir á annað borð endursegja fréttir annarra miðla), en enn brýnni ástæða er til þess þegar um eldfim eða viðkvæm málefni er að ræða.

En viðbrögðin eftir á voru hárrétt og til fyrirmyndar. Að leiðrétta ranghermið, viðurkenna mistökin og biðjast velvirðingar.

Slík afsökunarbeiðni fjölmiðla á stundum erindi við umfjöllunarefni frétta, en fyrst og fremst þarf þó að biðja lesendur, hlustendur eða áhorfendur afsökunar. Að minnsta kosti ef fjölmiðli er annt um trúverðugleika sinn og vill viðhalda eða endurheimta traust eftir að hafa greint rangt frá í fréttum.

***

Hér var í liðinni viku fjallað um fréttaflutning af því hvernig það bar til að sakamanni var veitt uppreist æru. Aðallega þó það hvernig hver miðillinn á fætur öðrum hefði gefið sér það að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði átt þar sérstaka aðkomu sem staðgengill innanríkisráðherra á sínum tíma. Jafnvel svo að í leiðara Fréttablaðsins þóttist Magnús Guðmundsson menningarritstjóri blaðsins vera í aðstöðu til þess að lesa Bjarna pistilinn vegna þess og tala í nafni almennings um það.

En þetta var rangt, eins og ekki var mjög erfitt að komast að; um það liggja fyrir opinber gögn og stjórnvaldstilkynningar.

Þarna gáfu miðlarnir sér bara eitthvað (fróðlegt væri að vita hver rót þeirra ósanninda var), en vanræktu rannsóknarskyldu sína. Því það er nú eitt höfuðhlutverk fjölmiðla – auk þess að leita frétta og greina kjarnann frá hisminu – að leita staðfestingar á staðreyndum og sannleiksgildi heimilda og frásagna.

Almenningur verður að geta treyst því að það, sem fjölmiðlar slá föstu, gefa sér sem staðreyndir í fréttum og forsendur fyrirspurna, sé örugglega satt og rétt. Ekki bara eitthvað sem þeir halda, hafa heyrt eða finnist annað ólíklegt en.

***

Niðurstaða fjölmiðlarýnis um þessi mál í síðustu viku var sú, að bæði Ríkisútvarpið og Fréttablaðið skulduðu Bjarna Benediktssyni afsökunarbeiðni fyrir þennan kolranga fréttaflutning og atlögu að mannorði hans og pólitískum heilindum.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins birti skjótt áréttingu um staðreyndir málsins, en var svo sem ekki að biðjast afsökunar á neinu frekar en fyrri daginn. Lét svona að því liggja að Bjarni gæti nú bara eiginlega sjálfum sér um kennt að fréttamaður Ríkisútvarpsins hefði farið með fleipur um hann í fréttum.

Það ber ekki vott um traust vinnubrögð að geta ekki gengist við mistökum eða beðist afsökunar á þeim, en af einhverjum ástæðum virðist Ríkisútvarpinu það ævinlega um megn í nánast öllum málum. Það er ekkert nýtt, eins og hver og einn getur kynnt sér með aðstoð Google, en enn skrýtnara, þegar haft er í huga að í 1. grein siðareglna Ríkisútvarpsins stendur:

Starfsfólk stendur vörð um trúverðugleika stofnunarinnar. Staðreyndavillur og mistök, sem varða umfjöllun eða samskipti við almenning, eru undanbragðalaust leiðrétt eins fljótt og mögulegt er.

***

Viðbrögð Fréttablaðsins voru eilítið auðmjúklegri, því í helgarblaðinu skrifaði Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri blaðsins, forystugrein og kúskaði menningarritstjóra sinn fyrir að hafa reynt að klína málinu á persónur og leikendur og dylgja um heilindi þeirra:

Verkferlar í ráðuneytum, eins og þegar glímt er við mál sem varða uppreist æru, snúast um lög og reglur, venjur og hefðir. Tilgangurinn er að binda hendur þeirra sem með völd fara hverju sinni og koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir.

Sem er auðvitað mergurinn málsins. En sjálfsagt einsdæmi að leiðarahöfundur setji ofan í við annan leiðarahöfund með þessum hætti í sama miðli.