Það gleður hrafnana að sjá að enn finnast menn í íslensku athafnalífi sem eiga ekki erfitt að koma fyrir sig orði í ræðu og riti.

Gunnar Þór Gíslason stjórnarformaður leigufélagsins Ölmu er ekki hrifinn af frumvarpi Sigurðar Inga Jóhannessonar innviðaráðherra um breytingar á húsaleigulögum. Gunnar Þór skrifar umsögn fyrir hönd Ölmu um frumvarpið. Þar segir meðal annars: „Það er ekki laust við að upp vakni hughrif um austurþýska embættismenn með gúmmístimpla á lofti. Það er sorglegt að þurfa að minna á það árið 2024 að skerðing á samningsfrelsi myndar frekara ójafnvægi á markaði.“

Gunnar, eins og fleiri gagnrýnir, frumvarpið harðlega og segir frumvarpið í raun færa ákvörðun leiguverðs úr höndum leigutaka og leigusala yfir til þriggja manna kærunefndar húsamála. Frumvarpið kveður á um að sögulegt leiguverð sé réttari mælikvarði á viðeigandi leiguverð hverju sinni fremur en framboð og eftirspurn og klóra því fleiri en hrafnarnir sér í kollinum hvernig borgaralega sinnuð stjórnmálaöfl á þingi – ef þau eru einhver – geti stutt að það nái í gegn.

Huginn og Muninn er einn af ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 3. apríl 2024.