Það kom hröfnunum í opna skjöldu að Ríkisútvarpið, sem landsmenn greiða skylduáskrift að, er þekktasta vörumerki landsins samkvæmt niðurstöðum vörumerkjamælingar 2023.

Þessu greindi Stefán Eiríksson útvarpsstjóri rogginn frá á stjórnarfundi ríkismiðilsins en mælingin náði til tæplega 300 vörumerkja. „Jákvæðni gagnvart RÚV mældist einnig há eða 7,5 og hæst allra fjölmiðla. RÚV mælist með háa vitund og sterka ímynd samkvæmt þessari könnun sem framkvæmd hefur verið árlega undanfarin rúm 10 ár,“ segir í fundargerð. Ekki er tekið fram hvernig aðrir fjölmiðlar koma út úr þessari ánægjukönnun RÚV.

Það gleður þó hrafnana að sjá að þeir liðlega 49 milljarðar króna sem skattgreiðendur hafa lagt rekstri ríkismiðilsins til á árunum 2014-2022 á föstu verðlagi hafi verið vel nýttir. Þá er þetta til marks um að ný stefna útvarpsstjóra, sem kynnt var með pompi og prakt á haustdögum 2022, hafi þegar sannað gildi sitt.

En bestu tíðindin í þessu hljóta þó að vera að stjórnendur RÚV sjá þá varla þörf á kostnaðarsamri endurmörkun á vörumerki og ásýnd ríkismiðilsins. Ekki er óalgengt að stofnanir og fyrirtæki á vegum hins opinbera ráðist í slíkar tilgangslausar aðgerðir og er borgarfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur nýlegasta dæmi þess.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.