Þrátt fyrir að borgarmeirihlutinn hafi um árabil sagt svart vera hvítt þegar kemur að fjármálum borgarinnar hefur það litlu breytt. Fjárhagur borgarinnar er í rjúkandi rúst og sést það best á tveimur síðustu skuldabréfaútboðum borgarinnar.

Borgin var með skuldabréfaútboð í gær og sá sér aðeins fært um að taka tilboðum fyrir um 300 milljónir á afarkjörum. Áhugi skuldabréfamarkaðarins á sífelldri útgáfu á skuldabréfum illa rekinnar borgar sem er stjórnað af meirihluta í afneitun gagnvart vandanum er lítill sem enginn.

Það er ekki til að auka trúverðugleika borgarinnar að fjárhagsstaðan skuli vera svo aðþrengd að meirihlutinn hafi yfir höfuð fyrir því að safna svona klinki með skuldabréfaútboði. Um er að ræða útboð fyrir tvo skuldabréfaflokka borgarinnar sem eru annars vegar 25 milljarðar og hins vegar tæplega 30 milljarðar að stærð.

Að mati hrafnanna má líkja þessu við fjármögnun ógæfumanns sem leitar í örvinglun að krumpuðum seðlum í gömlum jökkum eða tínir saman dósir til að eiga möguleika á því að fjármagna næstu skref.

Borgin sækir um þróunarlán

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Einar Þorsteinsson borgarstjóri og hans fólk í meirihlutanum farið með betlistaf alla leið til Parísar til þess að slá lán hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins. Það er kannski við hæfi þar sem meginhlutverk Þróunarbankans er að styðja við uppbyggingu í fátækustu ríkjum álfunnar.

Allar dyr lokaðar

Það er svo sem ekkert skrýtið. Bankarnir geta ekki lánað borginni meira fé og skuldabréfamarkaðurinn er svo gott sem lokaður vegna mikils framboðs af skuldabréfum borgarinnar.

Það kæmi hröfnunum ekki á óvart með þessu áframhaldi verði Reykjavík fyrsta borgin sem leitar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Huginn og Muninn er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins