Launahækkun Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair , rataði í fjölmiðla í vikunni. Laun og hlunnindi Boga Nils í fyrra námu 518 þúsund dollurum eða um 5,5 milljónum króna á mánuði miðað við meðalgengi dollars á síðasta ári. Árið 2020 námu launin 355 þúsund dollurum eða 4 milljónum króna á mánuði miðað við meðalgengi dollars það ár.

Launin hækkuðu því mikið á milli áranna 2020 og 2021 eða sem nemur 45%. Þar með er samt bara hálf sagan sögð því þegar heimsfaraldurinn skall á árið 2020 lækkuðu laun Boga Nils töluvert og eru það engar ýkjur því á árinu 2019 námu laun hans 452 þúsund dollurum. Frá árinu 2019 hafa laun Boga Nils því hækkað um 15%, sem er í takt við hækkun launavísitölu á tímabilinu.

Hrafnarnir hafa heyrt að meginskýringin á launahækkuninni sé samt sú að stjórn Icelandair hafi óttast að missa Boga Nils úr starfi. Mun tilnefningarnefnd félagsins hafa orðað þetta á fundum með stærstu hluthöfunum, sem að mestu eru lífeyrissjóðir. Á fundunum mun hafa komið fram ótti við að erlend flugfélög myndu krækja í Boga Nils. Því væri brýnt að bæta launakjör hans, sem og annarra lykilstjórnenda.

Á síðasta ári hættu þrír í framkvæmdastjórn Icelandair eða þau Eva Sóley Guðbjörnsdóttir fjármálastjóri, Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .