Týr veltir stundum fyrir sér hvert erindi stjórnarandstöðunnar sé í raun og veru.

Sú spurning varð áleitin þegar hann hlustaði á Hönnu Katrínu Friðriksson, þingmann Viðreisnar, í Silfrinu á mánudag furða sig að ekki hafi verið samið um upptöku evru við gerð kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins, Eflingar og Starfsgreinasambandsins á dögunum.

***

En það er jákvætt að þingmenn láti sig fjármögnun á áttatíu milljarða útgjaldaaukningu ríkissjóðs vegna kjarasamninganna sig varða. Þeir hafa fram til þessa ekki haft miklar áhyggjur af viðvarandi hallarekstri ríkissjóðs frá árinu 2019.

Það er ánægjulegt að Þórdís Kolbrún Gylfadóttir fjármálaráðherra geri sér grein fyrir að aðhaldsaðgerðir í rekstri séu eini valkosturinn þegar kemur að fjármögnun útgjaldanna. Af nægu er að taka þegar kemur að því að taka til í ríkisrekstrinum. Það er jafnframt ánægjulegt að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók af öll tvímæli á Alþingi á mánudag og sagði að aðgerðarpakkinn yrði ekki til þess að skattar á einstaklinga og lögaðila yrðu hækkaðir.

***

En systurflokkarnir Samfylkingin og Píratar eru einhuga um að hækka eigi skatta til þess að standa straum af ríkisútgjöldum til að fjármagna aðgerðarpakkann. Fram hefur komið í fréttum að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, klóraði sér í kollinum yfir kjarasamningunum og komst svo að þeirri niðurstöðu að hækka þyrfti fjármagnstekjuskatt. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, sagði það sama í þingumræðum í vikunni.

***

Fjármagnstekjur einstaklinga námu samkvæmt Hagstofunni um 240 milljörðum árið 2022. Fólk eldra en sextugt greiddi meira en helminginn af þessari upphæð í fjármagnstekjur. Stærsti hluti þessa hóps eru ellilífeyrisþegar. Er þetta sá hópur sem horft er til þegar boðaðar eru stórfelldar hækkanir á fjármagnstekjuskatti til að fjármagna frekari ríkisútgjöld. Í nýlegu svari við fyrirspurn sem Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sendi til fjármálaráðherra um fjölda einstaklinga sem höfðu fjármagnstekjur umfram launatekjur og reiknað endurgjald á árunum 2013-2022 kemur fram að langstærsti hluti þeirra hafði engar tekjur. Kallast þetta á við aldursskiptingu þeirra sem greiða fjármagnstekjur.

Er þetta virkilega feiti gölturinn sem Samfylkingin og Píratar vilja flá með hækkun fjármagnstekjuskatts?

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill fyrst í blaðinu sem kom út 13. mars 2024.