Hrafnarnir sjá að með hverjum degi aukast líkurnar á því að Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, takist ætlunarverk sitt um að hlaða í verkföll öllum til ama og sárra leiðinda.

Atkvæðagreiðslu félagsmanna VR, sem starfa í Leifsstöð, lýkur á fimmtudag og á sama tíma lýkur atkvæðagreiðslu aðildarfélaga SA um verkbann á allt skrifstofufólk sem aðild á að VR. Verkbann er fullkomlega réttlætanlegt undir þessum kringumstæðum enda myndu verkföllin loka landinu um þarnæstu helgi með tilheyrandi skaða fyrir íslenskt efnahagslíf og vandkvæðum fyrir fólk sem hugði á ferðalög um páskana. Hrafnarnir telja það rannsóknarefni hvernig Ragnari hefur tekist að teyma félagsmenn VR út í þetta fen.

VR var hluti af svokallaðri breiðfylkingu þegar hún kom sér saman við Samtök atvinnulífsins um launastefnu næstu ára. En Ragnar klauf sig frá þeirri fylkingu og er nú á góðri leið með að takast að loka landinu á grundvelli krafna sem ekki höfðu áður heyrst við samningaborðið og eiga fyrst og fremst heima á borði Félagsdóms eins og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, hefur bent á. Hrafnarnir telja þetta framferði með ólíkindum og að ábyrgð bæði stjórnar og félagsmanna VR sé mikil ef allt fer á versta veg.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill fyrst í blaðinu sem kom út 13. mars 2024.