Fyrir rúmlega tuttugu árum gerði bandarískur sálfræðiprófessor og nemandi hans rannsókn eftir að hafa lesið um ræningja sem héldu að þeir yrðu ósýnilegir í öryggismyndavélum með því að bera á sig sítrónusafa.

Flestir myndu telja að þessir ræningjar hefðu verið á einhverju fleiru en sítrónusafa, en í það minnsta fannst prófessornum, David Alan Dunning, og nemandanum, Jason Kruger, þetta nógu áhugavert til að skoða betur hvernig fólk gæti lent í slíkum ógöngum.

Til varð hugtakið Dunning-Kruger-áhrifin, en þau lýsa sér í því að fólk með litla þekkingu á ákveðnu sviði ofmetur getu sína. Með öðrum orðum, fólk veit svo lítið að það áttar sig ekki á hversu lítið það veit.

Hin hliðin á peningnum er tilhneiging fólks, sem veit meira, til að vanmeta þekkingu sína, af því að það gerir sér grein fyrir hversu flókið viðfangsefnið er eða fræðasviðið vítt.

Það ætti ekki að koma á óvart að oft ber meira á fyrri hópnum. Hann er óhræddur við að tjá sig um allskonar mál og finnst iðulega brotalamir og lausnir augljósar. Íslandsbankasalan er dæmi um þetta, þar sem upp hafa sprottið óvæntir sérfræðingar í sölu banka.

Stundum er þetta fólk sem er ágætlega að sér á eigin fræðasviði og virðist því telja sig fært um að kveða upp dóma á öðrum, eins og þegar hagfræðimenntaður álitsgjafi taldi sig geta fullyrt að eitthvað væri lögbrot „eðli málsins samkvæmt“.

Það hljómar svolítið furðulega í eyrum lögfræðinga sem eru t.d. vanir að lúta ströngum kröfum um heimfærslu verknaðar til refsiákvæða. 

Þetta þýðir ekki að ekkert megi gagnrýna né tjá sig um án prófgráðu. Einungis að það getur verið hollt að átta sig á eigin takmörkunum áður en maður tekur fram stóru sleggjuna.