Viðskiptablaðið sagði frá því í síðustu viku að íslenska ríkið myndi borga 100 milljónir á þessu ári í upprunaábyrgðir á þeirri raforku sem stofnanir ríkisins koma til með að nota.

Rammasamningur um innkaup ríkisins á raforku tók gildi í nóvember.

Í fyrsta sinn gerði ríkið kröfu um að uppruni orkunnar gæti talist grænn. Samningurinn mun kosta ríkið einn milljarð á ári til tveggja ára og eins og fram kom í frétt Viðskiptablaðsins nemur kostnaðurinn vegna upprunaábyrgðanna 10% af heildarverðinu. Ríkið mun því greiða að minnsta kosti tvö hundruð milljónir á næstu tveimur árum í upprunaábyrgðir.

Þetta getur ekki með neinu móti talist góð meðferð á skattfé borgara þessa lands. Þessu verður ekki lýst öðruvísi en tilgangslausu bruðli á kostnað skattgreiðenda sem er engum til gagns. Haldi ríkið áfram á þessari braut mun kostnaður vegna upprunaábyrgða hlaupa á milljörðum.

Til hvers?

Eins og fram kemur á heimasíðu Samorku þá eru upprunaábyrgðir í raun styrkjakerfi sem fólki og fyrirtækjum er frjálst að taka þátt í, óháð því hvort þessir aðilar geti í raun notað endurnýjanlega orku. Kerfið um upprunaábyrgðir er óháð afhendingu raforkunnar. Hvers vegna er íslenska ríkið að kaupa slíkar ábyrgðir þegar hvert mannsbarn hér á landi veit hvaðan raforkan sem er notuð hér á landi kemur?

Á heimasíðu Landsvirkjunar er einnig fjallað um upprunaábyrgðir og hvers vegna sum fyrirtæki sjá sér hag í að kaupa slíkar ábyrgðir. Þar segir að ákvörðun um að borga aukalega fyrir rafmagn geti verið tekin út frá sjónarmiðum um samfélagslega ábyrgð en einnig vegna ákalls frá viðskiptavinum raforkunotandans um staðfestingu á notkun á endurnýjanlegri orku. Hefur slíkt ákall heyrst frá íslenskum skattgreiðendum. Í hverju felst samfélagsleg ábyrgð þeirra ríkisstarfsmanna sem tóku ákvörðun um að krefja íslenska raforkuframleiðendur um staðfestingu um að orka þeirra væri græn? Sú samfélagslega ábyrgð er að minnsta kosti ekki gagnvart skattgreiðendum.

Upprunaábyrgðir eru eingöngu seldar á frjálsum markaði til að auka sýnileika grænnar framleiðslu á reikningum raforkuframleiðanda. Slíkur markaður er háður því að kaupendur hafi áhuga á að fjárfesta í slíkum ábyrgðum án þess að lagaskylda eða önnur skylda standi að baki slíkum kaupum. Markmiðið með sölu þessara vottorða er að brúa bil kostnaðar við að framleiða græna orku í samanburði við ódýrari framleiðslu á raforku úr jarðefnaeldsneyti. Þar sem notandi hefur ekki þann kost að velja frá hvaða virkjun varan sjálf, þ.e. raforka kemur, er honum veittur sá kostur að styðja við framleiðslu á grænni raforku með því að, sjálfviljugur, kaupa upprunaábyrgðir.

Þetta fyrirkomulag er skiljanlegt í hinu evrópska samhengi þar sem orka sem er mötuð inn á sameiginlegt flutningskerfi stafar jafnt frá grænni raforkuframleiðslu sem og frá orkugjöfum á borð við jarðefnaeldsneyti. En þetta á augljóslega ekki við hér á landi þar sem 99,9% af raforkuframleiðslu flokkast sem græn. Það er beinlínis óheimilt samkvæmt lögum að framleiða raforku með öðrum orkugjöfum en endurnýjanlegum. Sú undanþága er þó til staðar að heimilt er að veita leyfi til að reisa og reka varaaflstöðvar, toppaflstöðvar og aflstöðvar fyrir einangruð raforkukerfi sem nýta aðra orkugjafa.

Vissulega geta útflutningsfyrirtæki séð sér hag í því að festa kaup á slíkum ábyrgðum sérstaklega ef krafa er gerð um slíkt af kaupendum erlendis. En það eru engin rök fyrir því að íslenska ríkið kaupi slíkar ábyrgðir. Þeir stjórnmálamenn sem bera ábyrgð á þessu tilgangslausa bruðli verða að svara fyrir það sem fyrst.

Þeir mættu einnig svara spurningum hvernig íslenskum stjórnvöldum tókst að sannfæra umheiminn um að hér væri notuð græn orka þegar þau fengu íslenska ákvæðið svokallaða inn í Kyoto-samkomulagið á sínum tíma án þess að upprunavottorð kæmu við sögu. Svo má einnig velta fyrir sér hvort það hafi ekki verið ákveðin vörusvik þegar við fengum íslenska ákvæðið í Kyoto samkomulaginu og hvort það hafi þá ekki verið ákveðin vörusvik þegar Íslandsstofa og forverar hennar seldu erlendum fyrirtækjum þá hugmynd að koma hér til lands og nýta græna orku – orku sem þeir verða í dag að kaupa upprunaábyrgðir fyrir.

Leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom út 17. janúar 2024.