Það er eins og að Íslendingar hafi gleymt þeirri staðreynd að hallarekstur ríkisins leiðir á endanum til aukinnar skattheimtu. Að minnsta kosti fer ekki mikið fyrir þeirri hugsun þegar stjórnmálamenn ræða stöðu ríkissjóðs.

Frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra tók við völdum veturinn 2017 hafa útgjöld ríkissjóðs aukist um 433 milljarða króna. Ríkissjóður hefur verið rekinn viðstöðulaust með halla frá árinu 2019 og ekki er útlit fyrir að það breytist á næstu árum.

Þegar fjárlög þessa árs voru lögð fram var það undir flaggi aðhalds og ráðdeildar. Hið meinta aðhald fólst í að auka útgjöld ríkissjóðs um 150 milljarða. Frumvarpið gerði upphaflega ráð fyrir 47 milljarða halla og að hrein staða ríkissjóðs myndi versna um 90 milljarða á árinu.

Síðan hefur mikill beinn og óbeinn kostnaður fallið á ríkissjóð vegna Reykjaneselda og ástandsins í Grindavík. Sá kostnaður verður mikill þegar allt er yfirstaðið. Nú hafa stjórnvöld ákveðið að auka útgjöld um átta tíu milljarða króna á næstu fjórum árum í tengslum við gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum.

Engar líkur eru á því að þau útgjöld stöðvist þegar kjarasamningarnir renna út. Vel stætt miðaldra fólk með börn á grunnskólaaldri mun væntanlega fá skólamatinn áfram greiddan úr opinberum sjóðum eftir að árið 2028 rennur sitt skeið á enda. Það sama á við um hinar millifærslurnar sem voru kynntar eftir að samningarnir voru í höfn.

Rétt er að minna á að kjarasamningar opinberra starfsmanna losna eftir nokkra mánuði. Vafalaust munu útgjöld ríkissjóðs aukast enn frekar vegna þeirra. Forsætisráðherra mun sennilega halda áfram á sömu braut og koma á gjaldfrjálsum mat í leikskólum landsins með tilheyrandi kostnaði fyrir hið opinbera.

Mikil útgjaldaaukning undanfarinna ára hefur að einhverju leyti sloppið til vegna þess mikla krafts sem hefur verið í hagkerfinu. Tekjur ríkissjóðs hafa vaxið líka. Nú eru blikur á lofti. Skýr merki eru um að vaxtastefna Seðlabankans sé að hægja áþreifanlega á hjólum atvinnulífsins. Ekki verður hægt að reiða sig á endalausan vöxt skatttekna.

Staðan er einfaldlega sú að stjórnvöld verða að ráðast í markvissan niðurskurð á útgjöldum ríkisins. Það verkefni getur ekki beðið. Ef það verður ekki gert er útilokað að markmið kjarasamninganna – að stuðla að lægri verðbólgu og þar af leiðandi lækkandi vaxtastigi – náist. Það að dæla tugum milljarða í hendur stöndugs fólks með meðaltekjur í formi niðurgreiðslu á skólamáltíðum og bótagreiðslum er ekkert annað en þensluhvetjandi aðgerð í efnahagslegum skilningi og til þess fallin að grafa undan markmiðum kjarasamninga ef engu aðhaldi verði beitt við stjórn ríkisfjármála.

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir fjármálaráðherra virðist gera sér grein fyrir þessu. Eftir að kjarasamningar voru undirritaðir þá sagði hún útspil ríkisstjórnarinnar kalla á aðhaldsaðgerðir. Reyndar tók hún sérstaklega fram að aðhaldið mætti ekki vera sársaukafullt. Vonandi er það til marks að hún geri sér grein fyrir að stór hluti útgjaldaaukningar undanfarinna ára hefur eingöngu verið til að fóðra óþarfa fitulag í rekstri ríkisins sem flestir geta verið án.

En er líklegt að ráðdeild og skynsemi verði loks að leiðarljósi þessara ríkisstjórnar? Svarið við þeirri spurningu er einfalt: Nei. Það mun ekki gerast meðan sumir ráðherrar í ríkisstjórninni virðast ekki geta staðið upp úr rúmi sínu á morgnana án þess að lofa hundruðum milljóna af tekjum skattborgara þessa lands í einhvern tilgangslausan óþarfa til að kaupa sér vinsældir.

Það gengur auðvitað ekki til lengdar og fyrr frekar en síðar þarf að taka á þessum mikla hallarekstri ríkisins. Það að draga úr ríkisumsvifum leiðir á endanum til lægra vaxtastigs sem kemur atvinnulífinu og heimilum til góða og býr til grundvöll fyrir sjálfbæran hagvöxt. Hvorki fjórða iðnbyltingin né gervigreindin hafa breytt þessum gömlu sannindum austurríska skólans í hagfræði.

Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. mars 2024.