Týr varð vitni að því í síðustu viku þegar Lilja Alfreðsdóttir ráðherra rafrænna skilríkja og Íslenska dansflokksins gerði atlögu að nýju Íslandsmeti í valdshroka.

Lilja mætti í Kastljós ríkismiðilsins til að svara fyrir frumvarp sitt um að tvöfalda þær greiðslur sem ríkislistamenn fá á hverju ári. Mestu púðrinu í viðtalinu varði Lilja í að rakka niður starfsfólk Viðskiptaráðs fyrir að voga sér að gagnrýna áform ráðherrans.

***

Gagnrýni Viðskiptaráðs byggir á þeirri staðreynd að ótækt er að auka ríkisútgjöld með þessum hætti á sama tíma og ríkissjóður er rekinn með jafn miklum halla og raun ber vitni og bráða nauðsyn ber til að beita öllum ráðum til þess að koma á verðstöðugleika á ný. Lilja svaraði þessari gagnrýni með því að segja efnislega að í Viðskiptaráði starfaði menningarsnautt pakk sem ætti fyrst og fremst að óska eftir enn meiri framlögum til ríkislistamanna.

Við þetta bætti svo ráðherrann að hver einasta króna sem ríkið ver í listsköpun skili sér sjöfalt til baka og að Íslendingar ættu að taka Rauða alþýðulýðveldið sér til fyrirmyndar í þessum efnum: Þar dafni blómlegt mannlíf samhliða hagvexti vegna ríkisútgjalda Kínverja til menningar og lista.

Tý setti hljóðan. Dettur nokkrum manni virkilega í hug að niðurgreiðsla ríkisins á framleiðslu þáttanna True Detective hafi skilað þjóðarbúinu þrjátíu milljörðum í ábata?

***

Enn undarlegri var málflutningur ráðherrans að fjölgun þjóðarinnar kallaði enn fremur á frekari framlög til listamanna. Er það virkilega? Kallar sú staðreynd að tugþúsundir austantjaldsmanna og fólk frá Rómönsku Ameríku hafi flutt til landsins á liðnum árum að Hallgrímur Helgason og Andri Snær Magnason tvöfaldi vinnuframlag sitt á móti ríkislistarlaunum?

Að sjálfsögðu er það ekki svo.

Týr deilir ekki við ráðherrann um mikilvægi menningar og lista fyrir samfélagið. En rétt er að halda til haga að ríkisútgjöld eru ekki forsenda listsköpunar og að sköpunin blómstrar best þegar hún fær frið frá ríkisvaldinu.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 10. apríl 2024.