Hrafnarnir höfðu gaman af lestri stöðumatsskýrslu sem KPMG vann fyrir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um áhrif styttingar vinnuvikunnar hjá hinu opinbera. Í stuttu máli er niðurstaða skýrslunnar að ríkisstofnanir hafi ekki hugmynd um hvort gagn hafi verið af styttingu vinnuvikunnar en að opinberir starfsmenn séu helsáttir og vilja ganga enn lengra í þessum efnum. Að sama skapi hefur ánægja almennings með þjónustu opinberra stofnanna hrunið frá því að styttingin var innleidd.

Skýrsluhöfundar þora þó ekki að fullyrða að þarna kunni að vera samband á milli. En það skemmtilegasta sem hrafnarnir lásu í skýrslunni er eftirfarandi:

„Þrátt fyrir að stjórnendum ríkisstofnana hafi verið ráðlagt að fara hægt í sakirnar og innleiða styttingu vinnuvikunnar í skrefum samhliða vinnu við umbætur á rekstri og þjónustu innleiddu 77% stofnana hámarks vinnutímastyttingu í fyrsta skrefi.“

Með öðrum orðum gátu opinberir starfsmenn ekki beðið þvert á ráðgjöf sérfræðinga að stytta vinnuvikuna og komast sem fyrst heim.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 8. desember 2022.