Íslensku viðskiptabankarnir hafa orðið fyrir ósanngjarnri gagnrýni að undanförnu vegna stöðu mála í Grindavík. Stjórnmálamenn hafa keppst við að gagnrýna bankana fyrir að bregðast við eyðileggingunni í Grindavík vegna jarðhræringanna með því að bjóða fasteignaeigendum á svæðinu upp á frystingu lána.

Á óvissutímum er mikilvægt að stjórnmálamenn haldi ró sinni. Ekki sér fyrir endann á atburðarásinni í Grindavík og sýna þarf skilning á þeirri staðreynd. Starfsfólk fjármálafyrirtækja gerir sér ekki grein fyrir umfangi þess skaða sem þarf að bæta að svo komnu máli og þar af leiðandi hefur óvissan áhrif á með hvaða hætti þeir koma til móts við viðskiptavini sína í Grindavík. Einnig er rétt að benda á að það eru ekki einungis bankar sem veita fasteignalán heldur einnig lífeyrissjóðir. Fram til þessa hafa þeir sloppið við þessa óréttmætu gagnrýni stjórnmálamanna.

Jafnframt er rétt að hafa í huga að fordæmi eru fyrir því að fjármálafyrirtæki komi ríkulega til móts við viðskiptavini sína við fordæmalausar aðstæður. Þannig voru fasteignalán heimila færð niður um 150 milljarða króna eftir fjármálakreppuna 2008. Hægt var að ráðast í þá aðgerð vegna þess hvernig var staðið að stofnun nýju bankanna og eiga þær forsendur ekki lengur við í dag. En eigi að síður er hægt að ganga út frá því sem vísu að enginn skortur sé á vilja í bankakerfinu til að koma til móts við viðskiptavini sína í Grindavík.

En fyrst þarf umfang vandans að koma í ljós. Enn fremur verður að hafa í huga að fari allt á versta veg þá er það fyrst og fremst hlutverk ríkisvaldsins að aðstoða þá sem eiga um sárt að binda vegna hamfaranna. Um það hlýtur að ríkja breið pólitísk sátt. Það er ekki hlutverk hluthafa í fjármálafyrirtækjum þó svo að vafalaust muni þeir leika veigamikið hlutverk í þeim efnum.

Gagnrýni sumra þingmanna vekur upp spurningar um hið raunverulega pólitíska erindi þeirra. Vísir hafði eftir Oddnýju Harðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, um helgina að beita ætti banka refsisköttum ef þeir stýrast ekki að vilja hennar. Haft var eftir Oddnýju:

„Ég trúi ekki öðru en að banka-stofnanir komi betur að þessum málum og ef þær gera það ekki þá hafa stjórnvöld auðvitað möguleika á því að leggja á bankaskatt aftur og nýta þá fjármuni til stuðnings aðgerðum og mér finnst augljóst að það verði gert ef bankarnir taka ekki af skarið sjálfir.“

Það er hreint út sagt ótrúlegt að þingmaður skuli tala með þessum hætti og að hann líti á skattheimtu sem refsivönd til að ná fram pólitískum markmiðum. Oddný er í raun og veru að segja að það eigi að auka kostnað allra Íslendinga við fjármálaþjónustu og lánafyrirgreiðslu með skattlagningu svo hægt sé að koma til móts við Grindvíkinga í neyð. Það er afleitt ef þessi skoðun nýtur hljómgrunns í sölum Alþingis.

Hvernig sem atburðarásin, sem hófst í Grindavík fyrir nokkrum vikum, þróast á komandi mánuðum blasir við að það mun reyna á samtakamátt þjóðarinnar. Íslendingar hafa reynst þrautagóðir á raunastund og ekkert bendir til að það komi til með að breytast. Það er verkefni stjórnmálamanna að virkja þennan samtakamátt við lausn þeirra úrlausnarefna sem við blasa vegna Reykjaneselda og best er að þeir einbeiti sér að því í stað þess að atyrðast og standa í hótunum við einkafyrirtæki á opinberum vettvangi.