Í nýbirtri skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram að undanfarinn áratug, þar sem sjókvíaeldi á laxi er mest við Ísland á sunnanverðum Vestfjörðum, hefur börnum fækkað, fjölskyldum hefur fækkað og karlar eru orðnir hlutfallslega fleiri en konur svo töluverður munar. Í skýrslunni kemur líka fram að íslenskum ríkisborgurum hefur farið jafnt og þétt fækkandi á sama svæði.

Tölurnar eru sérstaklega forvitnilegar því þær afsanna þau meginrök hagsmunagæslusamtaka sjókvíaeldisfyrirtækja að sjókvíaeldi á laxi styrki búsetu í brothættum sjávarbyggðum.

Ekki sjálfbært samfélag

Í pistli á baksíðu Viðskiptablaðsins í síðustu viku vildi framkvæmdastjóri SFS, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, ekki ræða þennan forsendubrest hjá sjókvíaeldisfyrirtækjunum. Þess í stað kaus hún að draga fram bæði smjörtrogið sitt og strábaggann og hlaða í pistil þar sem hún talar um „andúð náttúruverndarsinna á útlendingum“ og nefnir sérstaklega okkur hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum. Þetta er óvenju ógeðsleg aðdróttun.

Þar sem börnum fækkar, fjölskyldum fækkar en körlum sem búa einir fjölgar verður ekki viðhaldið heilbrigðu og sjálfbæru samfélagi. Þetta veit framkvæmdastjóri SFS og kýs því að reyna að tala um eitthvað annað.

Í skýrslunni er bent á að skýrar vísbendingar eru um að stór hluti starfsmanna sjókvíaeldisfyrirtækjanna líti fremur á þorpin sem nokkurs konar verbúðir en eiginlegt heimili. Í umræðum á Facebooksíðu okkar hjá Íslenska náttúruverndarsjóðsins bendir einn heimamaður fyrir vestan á það er samsetning íbúa sem er umræðuefni en ekki þjóðernið:

„Flestir af þessum erlenda starfsfólki hér áður var kvenfólk, og hlutfallslega voru konur þá mun færri en karlar, og margar af þessum konum sem komu vestur til að vinna í fiski fundu mann fyrir vestan og eignuðust börn og fjölskyldu fyrir vestan. Núna er þetta allt annað við fiskeldið, þar er vinnuaflið sem kemur mest karlmenn og það eru þegar mun fleiri karlmenn en konur hér fyrir vestan,“ sagði Vestfirðingurinn.

0,2 prósent vægi

Í skýrslu Hagfræðistofnunnar kemur fram að sjókvíaeldi vegur ekki þungt í íslensku atvinnulífi. Árið 2022 voru 330 ársverk unnin í sjókvíaeldisfyrirtækjunum, samkvæmt ársreikningum þeirra. Hlutdeild sjókvíaeldis á laxi í atvinnu á landinu er um 0,2 prósent.
Talsmenn sjókvíaeldisfyrirtækjanna eru duglegir við að ræða útflutningsverðmæti afurðanna. Þeir vilja hins vegar ekki ræða hina hliðina, hvað kostar að búa til þessar útflutningstekjur og hversu mikið verður eftir á Íslandi. Frá 2007 hefur aðeins eitt þessara fyrirtækja greitt tekjuskatt og það í eitt skipti. Það segir okkur að látlaust tap er af þessum rekstri.

Í því samhengi er forvitnilegt að skoða eignarhald sjókvíaeldisfyrirtækjanna. Eigendurnir eru að langstærstum hluta norsk félög og önnur félög utan íslenskrar skattalögsögu sem hafa í hendi sér að selja dótturfélögum sínum fóður, búnað og ýmsa sérfræðiþjónustu dýrum dómum, auk þess sem þau veita félögunum hér ýmsa lánafyrirgreiðslu. Þessir fjármunir fara allir úr landi.

Vond byggðastefna

Skýrsla Hagfræðistofnunar er skýr. Þau kjör sem bjóðast við störf við sjókvíaeldi á freista landsmanna ekki nóg til þess að þeir flytji þangað sem það er stundað. Þjóðin hefur fyrir löngu áttað sig á því að sjókvíaeldi er mengandi iðnaður sem skaðar villta laxastofna með erfðablöndun og fer hræðilega með eldisdýrin sín.

Stuðningur við iðnaðinn hefur hingað til helst byggst á meintu mikilvægi hans fyrir brothættar byggðir. Í skýrslu Hagfræðistofnunnar er greining á lykilþáttum á því meinta mikilvægi.

Þar kemur fram að húsnæðisverð á sunnaverðum Vestfjörðum hefur hækkað á undanförnum árum rétt eins og annars staðar á landinu. Fækkun íslenskra ríkisborgara bendir til þess að fólk hafi selt fasteign sína og farið þegar húsnæðið batt það ekki lengur við staðinn.

Það var fyrirfram gefin stærð að ný störf koma sér auðvitað vel þar sem atvinnuleysi hefur verið hátt. Hitt var ekki þekkt hversu mikið samsetning íbúa hefur breyst.
Störf í þessum skaðlega iðnaði hafa ekki snúið við brottflutningi íslenskra ríkisborgara. Að auka sjókvíaeldi enn meira mun ekki gera það heldur. Íslenskir ríkisborgarar hafa selt húsnæði sitt og farið. Fjölskyldum hefur fækkað en einhleypum körlum fjölgað. Vinnuaflið hefur verið sótt annað. Þorpin eru að verða að verbúðum. Þetta er ekki góð þróun.

Höfundur er félagi í Íslenska náttúruverndarsjóðnum.