Yfirvofandi forsetakosningar virðast staðfesta það sem hrafnana hefur lengi grunað; að það sé ekki nóg að gera hjá forstjórum ríkisstofnanna.

Þannig bendir allt til þess að Helga Þórisdóttir, hinn leynilegi forstjóri Persónuverndar, bætist í hóp frambjóðenda auk þess sem Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og harmonikkuleikari, íhugar alvarlega að fara fram.

Það virðist því ekki meira mál að stýra umræddum stofnunum en svo að um leið sé hægt að reka tímafreka og kostnaðarsama kosningabaráttu. En hvað um það?

Hrafnarnir efast ekki um að þær og fleiri forstjórar ríkisstofnana hafi fengið hvatningu og stuðningsyfirlýsingar úr mörgum áttum. Þannig skilst hröfnunum að enginn hafi fengið fleiri hvatningar frá íslensku atvinnulífi til að bjóða sig fram heldur en Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.