Kaup Landsbankans á TM afhjúpa þann vanda sem eignarhald ríkisins á bankanum skapar.

Vafalaust er hægt að rökstyðja að kaupin kunni að vera skynsamleg út frá rekstrarlegum forsendum og að þau skapi tækifæri til hagræðingar og ávinnings fyrir viðskiptavini bankans.

En það er ekki hægt að færa nokkur rök fyrir þeirri skoðun að viðskiptin séu hagfelld fyrir aðaleiganda bankans – íslenska ríkið. Hér er um að ræða ríkisvæðingu á rótgrónu fyrirtæki sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki á íslenskum tryggingamarkaði ekki síst þegar kemur að sjávarútvegi.

Láti menn það óátalið að ríkisfyrirtæki á borð við Landsbankann víkki út starfsemina með yfirtökum á einkafyrirtækjum verður þess vart lengi að bíða að Isavia, sem er einnig í ríkiseigu, fari að kaupa rútufyrirtæki og skutla ferðamönnum til og frá Leifsstöð í samkeppni við einkarekin fyrirtæki.

Ekki er hægt að líta á íslenska ríkið sem hvern annan eiganda þegar kemur að fyrirtækjum í samkeppnisrekstri. Hagsmunir ríkisins felast ekki eingöngu í að hámarka hag sinn með eignarhaldi í fyrirtækjarekstri líkt og um einkafjárfesti sé að ræða.

Hagur íslenska ríkisins sem hluthafa í Landsbankanum felst ekki í því að koma í veg fyrir fjárfestingatækifæri annarra og ryðja keppinautum úr braut. Þetta verða stjórnendur Landsbankans að gera sér grein fyrir.

Augljóst er að þeir gera það ekki. Enda eru þeir ekki að velta fyrir sér hvar hagsmunir eiganda bankans liggja.

En það gerir greinilega Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra. Í afdráttarlausri færslu á samfélagsmiðlum eftir að tilkynnt var um kaupin á sunnudag sagði hún að ekki kæmi til greina af hennar hálfu að samþykkja kaupin án þess skilyrðis að byrjað yrði að selja hlut ríkisins í bankanum.

Það er hárrétt mat hjá fjármálaráðherranum. Rétt er að taka fram að viðskiptin þurfa að standa. Íslenskur fjármálageiri og verðbréfamarkaðurinn hefur ekki gott af enn öðru upphlaupi taugaveiklaðra stjórnmálamanna sem er tilkomin vegna dómgreindarleysis stjórnenda í bankakerfinu.

Þess vegna er það eina leiðin fram á við að grynnka á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum. Það er í samræmi við eigendastefnu ríkisins. Þar kveður á um að ríkið eigi ekki að ráða yfir meirihluta fjármálafyrirtækja til langframa. Í ljósi þess var áhugavert að fylgjast með þeim Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra segja að ekki stæði til að selja hluti í Landsbankanum í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi á mánudag. Þetta sögðu þær þrátt fyrir að eigendastefnan feli í sér að draga eigi úr áhrifum ríkissjóðs í hluthafahóp Landsbankans.

Í eigendastefnunni segir:

Stefnt er að því að ríkið eigi verulegan eignarhlut í Landsbankanum til langframa. Markmiðið með eignarhaldinu er að stjórnvöld hafi ráðandi ítök í a.m.k. einni fjármálastofnun sem þjónustar almenning og fyrirtæki og hefur höfuðstöðvar hér á landi. Þannig tryggja stjórnvöld að almenn, vönduð og traust fjármálaþjónusta standi öllum til boða óháð m.a. búsetu. Markmiðið með eignarhaldinu er ennfremur að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu, ásamt því að tryggja nauðsynlega og áreiðanlega innviði þess.

Af einhverjum ástæðum var það einhver trúarsetning eftir fjármálakreppuna að ríkið ætti að minnsta kosti að eiga verulegan hlut í einum kerfislægum
mikilvægum banka. Enginn hefur svarað spurningunni af hverju slíkt eignarhald er æskilegt. Ef ríkið ætti engan hlut í bankakerfinu í dag væri það keppikefli stjórnmálaflokkanna að það tryggði sér verulegan eignarhlut í banka eða þá tryggingarfélagi.

Að sama skapi hefur atburðarás undanfarinna daga sýnt hversu óheppilegur eigandi ríkið er að fjármálafyrirtækjum. Það sýndi líka uppákoman með síðasta útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þeir sem fara með ráðandi hlut í banka þurfa að hljóta viðurkenningu fjármálaeftirlits Seðlabankans á því að vera hæfur eigandi. Áleitnar spurningar hafa vaknað upp um hæfi ríkisins til þess að fara með slíkan eignarhlut.

Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist fyrst í blaðinu sem kom út 20. mars 2024.