*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Heiðrún Lind Marteinsdót
20. júlí 2018 13:07

Röng leið til jafnréttis

Nú liggur fyrir að konur taka alla jafna fæðingarorlof umfram karlmenn. Sú aðgerð að lengja einfaldlega fæðingarorlofið er því ekki til þess fallin að koma á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er getið um að lögð verði sérstök áhersla á jafnrétti kynjanna og að þar undir falli m.a. lenging fæðingarorlofs.
epa

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er getið um að lögð verði sérstök áhersla á jafnrétti kynjanna og að þar undir falli meðal annars lenging fæðingarorlofs. Svandís Svavarsdóttir hefur í þessu samhengi talið að samfélagið þurfi að horfast í augu við að það taki ekki þátt í lífi barnafjölskyldna frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskólarnir taki við og að ábyrgð kjörinna fulltrúa um að brúa þetta bil sé mikil.

Tilgangurinn er sannanlega góður. Það má hins vegar staldra hér við og spyrja hvort leiðin að þessu markmiði um jafnrétti sé hugsanlega röng. Nú liggur fyrir að konur taka alla jafna fæðingarorlof umfram karlmenn. Sú aðgerð að lengja einfaldlega fæðingarorlofið er því ekki til þess fallin að koma á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Raunar má ætla að konum verði gert enn erfiðara fyrir á vinnumarkaði ef fæðingarorlofið verður lengt. Konur verða þá í raun látnar taka við „vandamálinu“ sem felst í því að engin er umönnunin frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskólar taka við – þær eiga þá að leysa það með því að vera einfaldlega lengur heima og frá vinnumarkaði, með skertum greiðslum frá ríkinu. Sú staða er hins vegar síst til þess fallin að konum takist að standa jafnfætis körlum, því miður.

Telji stjórnmálamenn að ábyrgðin sé þeirra við að leysa áðurgreint vandamál, þá er til önnur leið sem betur stuðlar að því að konur og karlar standi jöfn að vígi á vinnumarkaði. Sú leið felst í því að liðka fyrir að umönnunarþjónusta verði veitt fyrr en nú er, hvort heldur af hinu opinbera eða einkaaðilum. Eftirspurnin eftir þjónustunni er sannanlega til staðar og varla svo flókið að liðka fyrir framboðinu. Eða hvað?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.