Í síðastliðinni viku sagði Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, sögulega uppbyggingu íbúðahúsnæðis framundan í Reykjavík. Fullyrðingin hljómaði eilítið kunnuglega. Síðastliðin ár hefur sitjandi borgarstjóri fullyrt húsnæðisuppbygginguna í borginni vera fordæmalausa, - jafnvel sögulega, kraftmikla og gríðarlega. Jafnvel þó tölurnar segi aðra sögu virðast nýliðarnir í Framsókn ætla að tileinka sér þessar innihaldslausu síbyljur meirihlutans. Því miður.

Íbúðum fer fækkandi í Reykjavík á næstu árum

Á sameiginlegum fundi HMS og Samtaka iðnaðarins í síðustu viku var kynnt nýleg íbúðatalning fyrir landið allt. Niðurstöður sýndu glöggt hvernig uppbygging dregst saman í Reykjavík en eykst á öðrum svæðum. Samkvæmt íbúðaspá er gert ráð fyrir að fullbúnum íbúðum í Reykjavík fari fækkandi á næstu tveimur árum en að annars staðar á höfuðborgarsvæðinu muni þeim fjölga nokkuð. Höfuðborgin er ekki í forystu og þeirri þróun þarf að snúa við.

Í nýjasta hefti Peningamála, útgefnu af Seðlabanka Íslands, segir jafnframt að hækkun húsnæðisverðs sé sem fyrr megindrifkraftur aukinnar verbólgu í landinu. Ekkert lát virðist á mikilli hækkun húsnæðisverðs þrátt fyrir að vextir hafi hækkað og hert hafi verið á lánþegaskilyrðum. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 25,5% milli ára í júlí síðastliðnum, sem er mesta hækkun sem mælst hefur í tæpa tvo áratugi. En hvað er til ráða?

Skortstefna í húsnæðismálum

Undanfarin ár hefur verið rekin skortstefna í Reykjavík. Húsnæðisskorturinn hefur verið viðvarandi og endurspeglast í mikilli verðhækkun íbúða. Fjöldi einbýla og íbúða í fjölbýli er í sögulegu lágmarki og nær helmingur allra seldra íbúða selst yfir ásettu verði. Reykjavíkurborg hefur hins vegar í hendi sér að bregðast við húsnæðisvandanum. Með auknu lóðaframboði, sveigjanlegri stjórnsýslu og einfaldara regluverki má liðka töluvert fyrir húsnæðisuppbyggingu, styrkja framboðshliðina og draga úr hækkunum á húsnæðisverði.

35 þúsund íbúða þörf

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur áætlað 35 þúsund íbúða þörf á landsvísu næstu tíu árin. Fjölgunin verði meiri á fyrri hluta tímabilsins, og því þurfi uppbyggingu 4.000 íbúða árlega næstu fimm árin. Þörfin verði mest á höfuðborgarsvæðinu en þar sé jafnframt mörg þúsund íbúða uppsöfnuð þörf vegna takmarkaðrar uppbyggingar, aukinnar fólksfjölgunar og hækkandi lífaldurs. Haldi bilið milli fjölda byggðra íbúða og fólksfjölgunar að breikka má vænta þess að fasteignaverð haldi áfram að hækka - og fasteignamarkaður reynast fólki enn óaðgengilegri.

Kosningar eftir kosningar lofar borgarstjóri stórsókn í húsnæðisuppbygginu – og nú virðast nýliðarnir í Framsókn ætla að grípa í sömu síbyljurnar.

Loforð meirihlutans um markvissar aðgerðir í húsnæðismálum og hraðari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis hafa ekki staðist. Áform um einfaldari skipulags- og byggingarferla hafa ekki komist til framkvæmda. Kosningar eftir kosningar lofar borgarstjóri stórsókn í húsnæðisuppbygginu – og nú virðast nýliðarnir í Framsókn ætla að grípa í sömu síbyljurnar. Árangurinn hvergi sýnilegur, nema í hönnunarteikningum sem enn hafa ekki komist til framkvæmda.

Úrval húsnæðiskosta

Það er mikilvægt að höfuðborgin mæti húsnæðisþörfinni – bæði þeirri uppsöfnuðu og þörfinni til framtíðar. Það verður einungis gert í góðu samstarfi við einkaframtakið. Ef við viljum að Reykjavík verði eftirsóknarverður búsetukostur til framtíðar, þarf að tryggja úrval húsnæðiskosta í lifandi borgarumhverfi sem hæfir ölllum kynslóðum.

Sjálfstæðisflokkur vill hefja skipulag íbúðauppbyggingar í Örfirisey og að Keldum, samhliða aukinni þéttingu innan hverfa sem hafa til þess svigrúm, svo sem í Úlfarsárdal og Staðarhverfi. Mæta þarf húsnæðisþörfinni með kröftugri framfylgd húsnæðisáætlana samhliða skipulagi nýrra svæða. Tryggja þarf stafrænar lausnir, nýsköpun í stjórnsýslu skipulags- og byggingamála, lægri álögur og sveigjanlegra regluverk fyrir byggingaiðnað í Reykjavík. Einungis þannig náum við árangri.

Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki láta sitt eftir liggja í umræðu um húsnæðisvandann. Við verðum ávallt reiðubúin að vinna að lausnum enda okkar markmið að í borginni finnist úrval fjölbreyttra húsnæðiskosta - fyrir fólk á öllum æviskeiðum.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu, sem kom út 13. október.