Eftir nokkra mánuði losna fjölmargir kjarasamningar þegar lífskjarasamningarnir renna sitt skeið. Í stað fregna af kjaraviðræðum lesa landsmenn nú daglega fréttir af óeiningu innan verkalýðshreyfingarinnar, þar sem meira að segja Alþýðusamband Íslands, og forystumenn þess eru orðnir að skotspæni verkalýðsforingja og þá sér í lagi Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar. Þeir sem hafa skipað sér í lið með Sólveigu Önnu eru Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Ólguna innan verkalýðshreyfingarinnar má rekja til stöðunnar, sem komin er upp innan Eflingar, annars stærsta stéttarfélags landsins. Alveg ljóst er að sú hryggspenna, sem formaðurinn heldur félaginu í, hefur slæm áhrif á verkalýðshreyfinguna í landinu. Einhverjir myndu halda að forsvarsmenn atvinnulífsins kættust yfir stöðunni en svo er ekki. Það er miklu betra og uppbyggilegra fyrir þá að fara inn í kjaraviðræður gegn sameinaðri verkalýðshreyfingu, þar sem lokaniðurstaðan byggir á sameiginlegri sátt en að mæta tvístraðri hreyfingu, þar sem fólk hefur gjörólíkar hugmyndir um hvað beri að semja og hvernig.

Sólveig Anna hefur frá því að hún kom fyrst fram á sjónarsviðið talað fyrir bættum kjörum hinna lægst launuðu. Smám saman hefur skuggi færst yfir formanninn. Upphafið má rekja til átaka við starfsfólk á skrifstofu Eflingar, sem varð til þess að hún sagði af sér formennsku síðasta haust. Hún bauð sig aftur fram í febrúar og hafði sigur úr býtum. Tók hún við formennsku á ný fyrir skömmu og var fyrsta verk hennar og nýrrar stjórnar að segja öllu starfsfólki á skrifstofu Eflingar, ríflega fimmtíu manns, upp störfum. Ágætt er að minna á að vinnustaðamenning og starfsánægja er á endanum á ábyrgð stjórnenda.

Lög um hópuppsagnir byggja á Evróputilskipun. Tilgangur þeirra er tvíþættur. Annars vegar er tilgangurinn að sporna við því að atvinnurekandi segi upp fleiri starfsmönnum en nauðsynlegt er. Hins vegar er tilgangurinn að leggja þá skyldu á atvinnurekanda að tilkynna stjórnvöldum vinnumarkaðsmála í landinu fyrirfram um uppsagnir starfsmanna, þannig að þau geti gripið til viðeigandi ráðstafana.

Í atvinnulífinu forðast fyrirtæki hópuppsagnir og er því tæki ekki beitt nema í ýtrustu neyð og þá yfirleitt vegna mikils vanda í rekstri. Fyrirtæki fara í skipulagsbreytingar til að forðast hópuppsagnir en hjá Eflingu er þessu snúið á hvolf og þar með búið að gefa fordæmið. Eins og staðan er í dag verður Sólveigar Önnu helst minnst sem verkalýðsforingjans sem stóð að hópuppsögn vegna skipulagsbreytinga á eigin skrifstofu.

Mikið hefur verið látið með að hún sé lýðræðislega kjörin formaður Eflingar og hafi þar með fullt umboð félagsmanna til breytinga. Í því sambandi má nefna að umboð hennar er miklu veikara en það var þegar hún var fyrst kjörin. Í febrúar hlaut hún og hennar listi 52% atkvæða en 80% árið 2018.

Vegferð Sólveigar Önnu í vetur vekur upp ótal spurningar. Var hún komin í minnihluta í stjórn Eflingar síðasta haust þegar hún sagði af sér formennsku? Notaði hún átökin við skrifstofufólkið sem tylliástæðu til að hætta vitandi að ellegar myndi hún eiga erfitt uppdráttar í formannskjörinu í febrúar? Fróðlegt væri að fá svör við þessum spurningum.

Eins og áður sagði hafa Ragnar Þór og Vilhjálmur staðið með Sólveigu Önnu í gegnum þykkt og þunnt. Þeir þögðu þó lengi eftir hópuppsagnirnar. Ragnar Þór hefur ekki treyst sér til að fordæma hópuppsagnirnar og þar með hefur hann í raun lagt blessun sína yfir þær. Á skrifstofu Eflingar starfa m.a. félagsmenn í VR. Og það var ekki fyrr en á miðvikudaginn að Vilhjálmur tjáði sig að ráði um málið. Það gerði hann í fremur vandræðalegri tilkynningu á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness, þar sem hann sagðist bera fullt traust til Sólveigar Önnu og baráttu hennar fyrir láglaunafólki en að hópuppsögnin væri mistök og ábyrgðin lægi hjá stjórn Eflingar.

Nýjustu vendingar í málinu urðu í vikunni þegar um 500 félagsmenn skiluðu undirskriftalista þar sem farið er fram á að félagsfundur verði haldinn í dag klukkan 17. Á fundinum á að ræða ákvörðun stjórnar Eflingar um hópuppsögn á skrifstofunni og svo önnur mál. Nú er ljóst að sá fundur verður ekki haldinn í dag heldur mun stjórn Eflingar ákveða tímasetningu fundarins.