Fyrir hart nær 40 árum tóku ungir Sjálfstæðismenn upp baráttu undir kjörorðunum „báknið burt“. Með ríkistjórn Davíðs Oddsonar var slagorðinu svo snúið í raunverulegt úrlausnarefni. Sú barátta tókst vel. Nú er öldin önnur. Víglínurnar hafa færst til og við hægrimenn vinnum okkur skaða með því að takast ekki á við þann vanda sem í dag liggur í „kerfinu“.

Nánast fullnaðarsigur í baráttunni gegn bákninu

Á sínum tíma settu ungir Sjálfstæðismenn 5 markmið tengdum baráttunni gegn bákninu:

  1. Draga skal úr stjórnmálaafskiptum af lánskerfinu.
  2. Áætlanir um ríkisfjármál skal gerð til lengri tíma en eins árs í senn.
  3. Afnám útflutningsbóta.
  4. Selja ríkisfyrirtæki
  5. Hætta niðurgreiðslum á þjónustu, gjald endurspegli raunkostnað.

Ólíkt því sem ætla má af dægurumræðunni þá náðu Sjálfstæðismenn 4 af þessum 5 markmiðum. Eingöngu liður 5 hefur ekki náðst. Enn er þjónusta hins opinbera niðurgreidd. Við Sjálfstæðismenn unnum því baráttuna “báknið burt”. Það er óhætt að lýsa yfir sigri í þeirri baráttu og hefja nýja. Í dag er það „kerfið“ sem gerir einstaklinginn svo háðan stjórnmála- og ríkisvaldinu að frelsi og framtak eru nánast að verða framandi hugtök.

Kerfið er stærsta ógn frelsisins í dag

Dragbítur frelsisins í dag er „kerfið“. Þessi lög og regluverk sem flæða yfir okkur og einkennast öðru fremur af stjórnlyndi og óhagræðingu sem heftir frumkvæði og dregur úr verðmætasköpun, velferð, frumkvæði og fjölbreytni.

„Kerfið“ felur í sér hið ríka stjórnlyndi sem einkennir framgöngu vinstrimanna. Í því er fólgin sóun og afturhald í stað ábyrgðar og sóknar. Þar liggur vald embættismanna, popúlismi stjórnmálamanna, hrópræðið, gullhúðunin og svo margt annað sem stríðir gegn vitund hægrimanna.

Víglínurnar hafa færst til

Það er mín einlæga skoðun að Sjálfstæðisfólk þurfi að uppfæra stefnu sína og tungutak. Þótt baráttumál okkar hægri manna séu þau sömu nú og þau hafa ætíð verið þá hafa víglínurnar færst til. Við viljum áfram draga úr ríkisafskiptum. Við viljum ekki að fólk sé háð stjórnmála- og ríkisvaldinu. Við viljum vernda frelsi einstaklingsins.

Ógnin núna er hins vegar ekki Breznev eða sósíalismi eftirstríðsáranna. Andstæðingurinn nú er „kerfið“. Eftirlitskerfið, leyfisveitingakerfið, reglugerðarkerfið. Boðin og bönnin. Stjórnlyndið. Þetta andlitslausa kerfi sem lætur framtakssömu fólki líða eins og það sé að synda í sírópsfeni þegar það reynir að finna kröftum sínum og vilja farveg.

„Kerfið“ er of erfitt

Kerfið er í dag of stórt og viðamikið. Það er á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins að draga úr þeim mikla vanda sem við erum í hvað þetta varðar. Í því samhengi þarf til að mynda að horfa til eftirfarandi:

  1. Draga þarf úr umsvifum, takmörkunum og kostnaði tengdum leyfisferlum og eftirliti.
  2. Færa þarf vald frá embættismönnum og stofnunum til kjörinna fulltrúa þannig að ákvörðunarvaldinu fylgi pólitísk ábyrgð. Við getum skipt út stjórnmálafólki en ekki embættismönnum.
  3. Færa þarf réttindi og skyldur opinberra starfsmanna til jafns á við það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði.
  4. Tryggja þarf að opinberi hluti vinnumarkaðar, þar með talið starfsmenn fyrirtækja í meirihluta eigu ríkisins, sé aldrei meira en t.d. 30% af heildarstærð vinnumarkaðarins.
  5. Hætta skal gullhúðun Evróputilskipana og tafarlaust byrjað að vinda ofan af þeim íþyngjandi innleiðingum sem þegar hafa verið samþykktar

Spjótin standa á okkur Sjálfstæðisfólki.

Höfundur er sjálfstæðismaður.