Líkt og litla lestin sem gat lét bankaráð Lands­bankans ekki eig­enda­stefnu ríkisins um fjár­mála­fyrir­tæki stöðva sig í að ríkisvæða fleiri fyrir­tæki.

Lands­bankinn, sem er 98,2% í eigu ríkisins en skil­greinir að sögn bankastjórans sig þó sem einka­fyrir­tæki, á­kvað ekki að láta ein­hver plögg frá kjörnum full­trúum trufla sig frá skýrum mark­miðum banka­stjóra og for­manni banka­ráðs um að hér þurfi aug­ljós­lega fleiri fjár­mála­fyrir­tæki að vera í ríkis­eigu.

Höfuðmarkmið eig­enda­stefnu ríkisins fyrir fjár­mála­fyrir­tæki frá árinu 2020 er að „ríkið stefnir ekki að því að eiga meiri­hluta í fjár­mála­fyrir­tækjum á al­mennum markaði til lengri tíma.“

En líkt og Peter Gibbons kenndi öllu skrif­stofu­fólki um alda­mótin er best að breyta um stefnu þegar fyrir­mæli yfirmanna eru manni ekki að skapi,

Stundum getur verið gott að breyta um stefnu.
Stundum getur verið gott að breyta um stefnu.

„Vertu breytingin“

Í stjórnar­hátta­yfir­lýsingu Lands­bankans segir að for­maður banka­ráðs eigi að stýra sam­skiptum við hlut­hafa bankans og verður ekki annað séð en að það eigi að til­kynna hlut­höfum um „ó­venju­legar eða mikils háttar“ ráð­stafanir.

Bankinnn telur símtal um óskuldbindandi tilboð í fyrra hafi uppfyllt þessa upplýsingaskyldu. Af þeim sökum hafi verið óþarfi að tilkynna um skuld­bindandi tilboð fyrir tæp­lega 29 milljarða sem var lagt fram þremur mánuðum seinna.

Kaupverðið samsvarar næstum sömu upphæð og allur hagnaður bankans í fyrra þó Tý gruni að skuldabréfaútboð í febrúar hafi verið nýtt til að fjármagna kaupin.

Fyrir­varar um sam­þykki hlut­hafa, líkt og var í til­boði Ís­lands­banka í TM, voru einnig ó­þarfi enda til hvers að binda hendur ríkisins þvert á yfir­lýsta stefnu ef það er hægt að rétta úr kútnum síðar meir.

„Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum,“ sagði Halla Tómasdóttir eitt sinn en setningin er stundum ranglega eignuð Gandhi. Sú til­vitnun, helst á bleikum bak­grunni, ætti að vera skjá­mynd öllum borð­tölvum Lands­bankans héðan í frá.

Hugmynd að skjávara fyrir þá sem vilja breyta til.
Hugmynd að skjávara fyrir þá sem vilja breyta til.

Týr telur ágætar líkur á því að bankaráð sé að rugla saman stefnu ríkisins fyrir ríkisbankann og stefnu ríkisins fyrir eignarhald á fjármálamörkuðum í heild sem óneitanlega á við um bankann.

Í undir­kafla eig­enda­stefnu ríkisins um bankann sjálfan segir að ríkið stefni að því að eiga Lands­bankann til „lang­frama.“

Landsbankinn hefur túlkað þetta þannig að hann eigi því að ganga langt inn á samkeppnismarkað og stækka enn frekar eins og systur­stofnanir sínar ÁTVR og RÚV.