Hin þrotlausa þekkingarleit þingmanna heldur áfram enda virðist þingheimur óvenju fróðleiksfús um þessar mundir. Hrafnarnir sögðu fyrir skemmstu frá því að tíu þingmenn fjárlaganefndar fögnuðu Góu með því að bregða sér í fræðsluferð til Parísar.

Þekkingarþorstinn er ekki síðri í atvinnuveganefnd. Tugur nefndarmanna hóf fræðsluferð sína til Þórshafnar í Færeyjum í gær og það verður ferðinni svo heitið til Osló í Noregi. Hröfnunum sýnist fáir þingmenn vera jafn fróðleiksfúsir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Haraldur Benediktsson, Eyjólfur Ármannsson og Stefán Vagn Stefánsson um þessar mundir en þeir tóku einmitt í góuferð fjárlaganefndar til Parísar á dögunum. Auk þeirra eru Bergþór Ólason, Gísli Rafn Ólafsson, Hanna Katrín Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir og Þórarinn Ingi Pétursson með því för auk tveimur starfsmönnum af skrifstofu Alþingis.

Tilgangur ferðanna er samkvæmt upplýsingum á vef Alþingis meðal annars að kynna sér starfsemi fjarskiptafyrirtækis í Færeyjum og þá fá þingmenn sérstaka kynningu frá sérfræðingum norska bankans DNB um fjármögnun í fiskeldi. Hrafnarnir telja ákaflega nauðsynlegt að íslenskir þingmenn séu vel að sér þegar kemur að veðlánum og bankaþjónustu til norskra laxeldisfyrirtækja – ekki síst í ljósi eignarhalds ríkisins á íslenskum bönkum.

Hiti við frostmark en sólin mun láta sjá sig

Veðrið mun því miður ekki leika við þingmennina í Þórshöfn fyrstu daga heimsóknar. Hiti verður við frostmark og einhver ofan koma er í kortunum. Hiti verður einnig við frostmark í Osló meðan á heimsókn þingmannanna stendur en þó er útlit sólin skíni á þingmennina fróðleiksfúsu síðari hluta vikunnar.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.