Undirritanir viljayfirlýsinga eru hröfnunum hugfangnar. Það voru því sár vonbrigði fyrir þá er þeir fengu veður af því að fyrirhugaðri undirritun á viljayfirlýsingu um samstarf um lendingarstað fyrir björgunarþyrlur í Nauthólsvík og um undirbúning að nýju deiliskipulagi vegna annars áfanga uppbyggingar Landspítala við Hringbraut, sem fram átti að fara síðar í dag, hafi verið slegið á frest.

Heilbrigðisráðherra, borgarstjóri, fjármálaráðherra, innviðaráðherra, dómsmálaráðherra, forstjóri Landspítalans, forstjóri Landhelgisgæslunnar og formaður stýrihóps um skipulag Landspítala áttu að rita undir viljayfirlýsinguna. Í tilkynningu þar sem undirritunin var blásin af kemur ekki fram útskýring á hvers vegna stórviðburðurinn var blásinn af.

Hrafnarnir telja þó líklegast að afboðunin sé enn ein staðfesting þess að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætli í forsetaframboð. Það krefst fundarhalda á stjórnarheimilinu um hvernig ríkisstjórnin verði stokkuð upp og hafa ofangreindir ráðherrar því mikilvægari hnöppum að hneppa en að skrifa undir enn eina viljayfirlýsinguna.

Hvað framkvæmdina sjálfa um lendingarstað fyrir björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar varðar geta hrafnarnir rétt ímyndað sér að ekkert verði til sparað og hið opinbera sætti sig aðeins við það besta. Því hlýtur þyrlupallur frá íslenska stórfyrirtækinu Normika að hafa orðið fyrir valinu. Allar líkur eru þá á að Eyþór, sem hefur um árabil verið fremsti þyrlupallasölumaður þjóðarinnar, hafi haft puttana í þeim viðskiptum.

Athugasemd: Skömmu eftir að pistillinn fór í loftið staðfesti Katrín að hún ætli í forsetaframboð.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.