Er CSRD (e. Corporate Sustainability Reporting Directive) tilskipunin um sjálfbærniupplýsingagjöf bara enn ein krafan um skýrslugjöf? Eða geta fyrirtæki nýtt sér þetta til framdráttar og samþætt sjálfbærni inn í kjarna starfsemi sinnar?

Mörg fyrirtæki þurfa að upplýsa um áætlanir sínar og aðgerðir til eflingu sjálfbærni fyrir árið 2024 á staðlaðan hátt. Þetta gildir hvort sem það er frá miklu að segja eða ekki. Fyrirtæki sem falla undir CSRD þurfa að gera grein fyrir upplýsingum þó að þær líti ekki vel út eða lítið sem ekkert hefur verið gert í málum s.s. áætlun um loftslagsbreytingar.

Og kröfurnar munu bara aukast. Frá 2025 þarf að gera grein fyrir þýðingarmiklum sjálfbærniþáttum og sjálfbærniupplýsingar munu þurfa staðfestingu óháðra endurskoðenda.

Gagnsæið leiðir til þrýstings

Áhrif tilskipunarinnar eru fyrst og fremst tvíþætt; strangar og staðlaðar kröfur gefa nýja sýn á eigin starfsemi og áður óþekkt gagnsæi fyrir utanaðkomandi hagsmunaaðila. Þetta er mjög öflug blanda sem felur í sér mikil tækifæri ef rétt er á haldið.

Ein mikilvægustu áhrif CSRD eru auðveldari samanburður fyrirtækja. Ytri hagsmunaaðilar, svo sem fjárfestar, félagasamtök og neytendur fá betri upplýsingar til að meta metnað og áætlanir um sjálfbærni og hvort það dugi til að ná settum markmiðum um sjálfbærni. Svo getur farið að ef orð og gjörðir stangast á skapast orðsporsáhætta og jafnvel lagalegar afleiðingar. Sem dæmi hafa kröfur varðandi loftslagsmál verið gerðar til fyrirtækja og fjárfesta sem sýsla með jarðefnaeldsneyti.

Umbreytingar hefjast fyrir alvöru ef sjálfbærni er sett í forgang og fjárfestir er í nauðsynlegum umbótum.

Fyrirtæki sem upplýsa þurfa samkvæmt CSRD fyrir árið 2024 spyrja sig; hvernig ætlum við líta út 1. janúar 2025? Mikilvægt er að líta svo á að sjálfbærniupplýsingarnar snúist ekki bara um að uppfylla lágmarkskröfur heldur að fyrirtækið móti haldbæra stefnu, samþætta allri starfseminni og veiti fyrirtækinu um leið samkeppnisforskot. Með því að hugsa það strax í upphafi eru meiri líkur á auknum jákvæðum áhrifum. Frumkvæðið nýtist við að þróa framtíðarviðskiptamódel í stað þess að vera þvinguð til aðgerða.

Hvernig sköpum við verðmæti?

Fyrirtæki geta uppgötvað ný tækifæri í vinnunni að CSRD sé rétt á málum haldið. Og til þess að ná árangri þarf sjálfbærni að vera óaðskiljanlegur hluti af starfsemi fyrirtækisins. Úthluta þarf ábyrgð, stýra áhættu tengdri sjálfbærni, þjálfa starfsfólk, bæta ferla, efla stjórnendur og aðfangakeðju. CSRD hrindir af stað og ætti að flýta fyrir breytingum á öllum þessum sviðum.

Með því að byrja snemma og hafa fókus á hvernig hafa má jákvæðari áhrif á umhverfið og samfélag samhliða bættri fjárhagsstöðu og verðmætasköpun geta fyrirtækin nýtt sér tækifærin sem fylgja auknum kröfum CSRD. Umbreytingar hefjast fyrir alvöru ef sjálfbærni er sett í forgang og fjárfestir er í nauðsynlegum umbótum. Í mörgum atvinnugreinum er þörf á algerri uppstokkun til að ná Parísarsamkomulaginu; hraðtískan, umbúðaiðnaðurinn og olíu- og gasfyrirtæki eru dæmi um atvinnugreinar sem mun þurfa uppstokkun í nálægri framtíð.

Að ná árangri krefst bæði fyrirhafnar og fjármagns. Fjárfestingar og frekari þjálfun er töluverð byrði en þessi viðleitni er nauðsynleg og hefði átt að hefjast fyrir löngu. Á endanum er þetta það sem gerir fyrirtækinu kleift að auka jákvæð áhrif sín á umhverfið, samfélagið og fyrirtækið sjálft.

Samkvæmt árlegri fjárfestakönnun PwC Global 2023 eru einkum tvö atriði sem fjárfestar hafa sérstakan áhuga á til að skilja betur hvað varðar breytingar og þau tækifæri sem felast í þeim; sjálfbærni og ný tækni. Fyrirtæki sem leggja sig fram um að uppfylla CSRD tilskipunina með skýrum og greinargóðum hætti stíga stórt skref til móts við fjárfesta og viðskiptavini við að aðstoða þá til að skila og meta að verðleikum stöðu og framlag fyrirtækisins í sjálfbærnimálum.