Yfirgnæfandi meirihluti ­félagsmanna Eflingar og aðildarfélaga ­Samtaka atvinnu­lífsins hefur samþykkt miðlunar­tillögu setts ríkissátta­semjara. Tillagan er efnislega eins og sú sem Aðal­steinn Leifsson lagði fram á sínum tíma og varð til þess að hann þurfti að segja sig frá deilunni að kröfu Eflingar. Niðurstaða hinnar ofsafengnu kjarabaráttu forystufólks Eflingar og verkfallsátaka er því sambærilegir samningar og samið var um við Starfsgreinasambandið og VR fyrir áramót. Verkfallsátök Eflingar skiluðu engu.

Í ljósi þessa er brýnt að forystusveit Eflingar svari fyrir þá harðlínustefnu sem rekin var í kjaraviðræðunum við Samtök atvinnulífsins. Hverju var áorkað með átökunum? Það eru ekki eingöngu félagsmenn Eflingar sem eiga rétt á svari við þessari spurningu heldur landsmenn allir.
Ljóst er að Sólveig Anna Jóns­dóttir, formaður Eflingar, var reiðubúin að ganga mun lengra í verkfalls­átökum, en missti vopnin úr höndunum þegar ljóst var að verkfallssjóður félagsins yrði ekki nýttur til að greiða félags­mönnum bætur ef til verkbanns kæmi. Ljóst er að sá stuðningur sem var við verkfallsaðgerðir innan félagsins gufaði upp þegar þetta varð félagsmönnum Eflingar ljóst.

Eins og fram hefur komið eru Samtök atvinnulífsins, Starfsgreinasambandið og VR nú þegar farin að funda um gerð langtímasamnings. Engin ástæða er til þess að efast um að þær viðræður fari fram af heilindum og það sé markmið allra sem að þeim koma að ná fram farsælli niðurstöðu.

Haft var eftir Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra í fréttum Ríkissjónvarpsins að þörf væri á nýrri þjóðarsátt til þess að koma böndum á verð­bólguna. Það segir kannski meira en mörg orð um andrúmsloftið í samfélaginu að fréttamaðurinn sem tók viðtalið fann sig knúinn til að spyrja seðlabankastjóra að því hverjir ættu eiginlega að koma að slíkri sátt. Svör Ásgeirs voru eigi að síður skýr eins og vanalega:

„Þjóðarsátt byggir náttúrulega á aðilum vinnumarkaðarins eins og hún gerði þegar hin fyrsta þjóðarsátt var gerð í kringum 1990 um raunhæf markmið um kaupmátt og svoleiðis, byggir líka á ákveðnu trausti á milli ­aðila og líka á það að ríkisstjórnin komi að málinu.“

Þjóðarsátt sem hefur stöðugleika á verðlagi og vinnumarkaði að markmiði hvílir á herðum aðila vinnumarkaðarins og kallar vafalaust á þátttöku ríkisvaldsins að einhverju leyti. Það hversu vel gekk í kjaraviðræðum við stærsta hluta hins almenna vinnumarkaðar fyrir áramót gefur ákveðin fyrirheit um að hægt verði að koma á slíkri sátt og stuðla þar með að stöðugleika til frambúðar.

En því miður er litlar líkur á að slík sátt náist meðan forystusveit Eflingar er leidd af herskáu fólki sem kýs átök umfram árangur í kjara­viðræðum. ­Öllum mátti vera ljóst að samninga­viðræður Eflingar við SA voru skrípaleikur sem snerist ekki um annað en að hátt í hundrað manna samninganefnd arkaði fram og til baka í Borgartúninu í svartstökkum með kröfuspjöld og var aldrei ætlað að leiða til neins annars en verkfalls­átaka. Þetta voru trúðslæti sem komu engum til gagns.

Því miður bendir fátt til annars en að forystusveit Eflingar haldi áfram sama skrípaleik þegar kemur að gerð langtímasamninga. Það verður að teljast ótrúlegt að þessi skrípaleikur verði endurtekinn með þátttöku fjölmiðla og álitsgjafa þegar núverandi samningar renna út. En til þess að afstýra því er nauðsynlegt að krefja forystu Eflingar svara um hvaða árangri verkfallsbröltið skilaði og hvort aðrar leiðir verði farnar í næstu kjaralotu.