Angústúra bóka­for­lag hlaut viður­kenningu fyrir bestu fjár­festingu í hönnun á Hönnunar­verð­launum Ís­lands 2023 í gærkvöldi. Samkvæmt tilkynningu frá Hönnunarmiðstöð Íslands hefur bóka­for­lagið frá upp­hafi átt í sam­starfi við leiðandi hönnuði og átt sinn þátt í skrá­setningu á hönnunar­sögu landsins.

Í rök­stuðningi dóm­nefndar segir að Angústúra hafi sett sterkan svip á bóka­út­gáfu á Ís­landi á skömmum tíma með fjöl­breyttri út­gáfu bæði hvað varðar inni­hald og hönnun.

„Angústúra gefur út vandaðar ís­lenskar bók­menntir og þýðingar, þar sem rík á­hersla er lögð á hönnun; skrá­setningu ís­lenskrar hönnunar­sögu, hönnunar­rýni og þýðingar á er­lendu efni tengdu hönnun.

Metnaður er lagður í um­gjörð verkanna og upp­lifun les­enda. Þar má nefna bóka­flokka í á­skrift, þar sem á­skrif­endum berast bók­menntir frá öllum heims­hornum í ís­lenskri þýðingu og hönnun.“

Bóka­for­lagið Angústúra var stofnað árið 2016 og hefur frá upp­hafi átt í sam­starfi við leiðandi hönnuði, sem fá fullt frelsi til að túlka inni­hald á sjón­rænan máta í mynd­lýsingum, kápu­hönnun og um­broti. „Þannig verða til fal­legir prent­gripir ætlaðir breiðum hópi les­enda,“ segir í til­kynningu frá Hönnunar­mið­stöð Ís­lands.

Að mati dóm­nefndar hefur fjár­festing Angústúru sýnt hvernig hönnunin sjálf getur vakið at­hygli og á­huga les­enda á verkunum. Bóka­for­lagið hefur þannig sett for­dæmi um það hvernig hægt er að standa vel að fjöl­breyti­legri út­gáfu og á hrós skilið fyrir þátt sinn í út­gáfu skrá­setningar á hönnunar­sögu á Ís­landi.

Hönnunar­verð­laun Ís­lands voru veitt við há­tíð­lega at­höfn í Grósku 9. nóvember en þetta er tíunda árið í röð sem verð­launin eru veitt.

Viður­kenning fyrir bestu fjár­festingu í hönnun var veitt í fyrsta sinn 2015 og er veitt fyrir­tæki sem hefur hönnun og arki­tektúr að leiðar­ljósi í starf­semi sinni til að auka gæði, verð­mæta­sköpun og sam­keppnis­hæfni. Það var Sigurður Hannes­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka Iðnaðarins sem veitti Maríu Rán Guð­jóns­dóttur, stofnanda og eig­anda Angústúru, viður­kenninguna.

Hönnunar­verð­laun Ís­lands eru unnin af Mið­stöð hönnunar og arki­tektúrs í sam­starfi við Hönnunar­safn Ís­lands, Lista­há­skóla Ís­lands, Ís­lands­stofu, Sam­tök iðnaðarins, Hús­næðis- og mann­virkja­stofnun og Grósku.