Átta verkefni hafa verið valin til þátttöku í samfélagshraðlinum Snjallræði en alls bárust 67 umsóknir, þar á meðal frá reyndum frumkvöðlum. Umsóknirnar voru mjög fjölbreyttar að því er segir í tilkynningu Icelandic Startups, en áttu það þó sameiginlegt að hafa að meginmarkmiði þann tilgang að stuðla að betra samfélagi.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá þegar rætt var Auði Örlygsdóttur verkefnastjóra Snællræðis um samfélagshraðalinn, sem er á vegum Höfða friðarseturs, þá hafa alla jafna borist um 40 umsóknir árin tvö sem hraðallinn hefur verið haldinn.

Teymin hefjast handa strax 1. febrúar, en hvert þeirra hlýtur 500.000 kr. styrk til þess að þróa hugmyndina áfram.
Átta teymi hafa verið valin til þátttöku í Snjallræði árið 2021. Þátttakendur fá aðgang að fræðslu og þjálfun frá innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði samfélagsmála og nýsköpunar og fundum með fjölda leiðbeinenda úr atvinnulífinu.

Snjallræði er ætlað að styðja við samfélagslegar lausnir og frumkvöðlastarfsemi sem byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Það geta verið lausnir sem snúa að heilbrigðisþjónustu og vellíðan, bættu menntakerfi, endurnýtanlegri orku, samgöngumálum og matarsóun, svo dæmi séu tekin.

Eftirfarandi teymi taka þátt í Snjallræði 2021:

  • Bambahús

Gróðurhús sem gerð eru úr bömbum taka strax á endurvinnslu, nýsköpun, verðmætasköpun, atvinnuþróun, sjálfbærni, næringu, umhverfisvernd og henta í alla ræktun. Fyrnasterk og viðhaldsfrí. Bambar eða 1000 lítra IBC tankar koma til landsins í miklum mæli og er fargað eftir notkun sem almennt sorp án úrvinnslugjalds og tilheyrandi kolefnissporum. Bambahús skapa því verðmætari afurð en þá upprunalegu og stuðla að grænna samfélagi, með sjálfbærni að leiðarljósi.

  • Tæknivinur

Tæknivinur er þjónusta sem miðar að því að leiða saman eldri borgara, sem þarfnast ráðgjafar í tæknilegum málum og yngra fólk (tæknivini) sem býr að þekkingu og kunnáttu á því sviði.

  • COMAS

Markmiðið með heimaræktunarverkefni COMAS er að skapa samfélag einstaklinga sem vilja rækta og framleiða næringarríkan mat með sameiginlegu átaki og með aðstoð nýjustu tækni.

  • Kolefnisjöfnun með menntun stúlkna

Verkefnið miðar að því að brúa bilið milli fyrirtækja, sem vilja kolefnisjafna rekstur sinn með því að fjárfesta í verkefnum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og samtaka sem leita eftir fjármagni til verkefna sem tryggja menntun stúlkna.

  • WULL Project

WULL Project nýtir vannýtta ull sem annars skilar engu virði til bænda og með því að leggja áherslu á náttúrulega eiginleika ullarinnar vill WULL Project breyta „göllum” hennar í kosti.

  • Electra

Markmið Electra er að undirbúa einstaklinga fyrir meðferð og auka líkur á langtíma bata með tilkomu hugbúnaðar. Til að byrja með verður horft til þess að bæta lífsgæði fyrir einstaklinga sem glíma við fíknisjúkdóm

  • HEIMA app

HEIMA er smáforrit sem sér um verkaskiptingu og hugræna byrði heimilisins með jafnrétti að leiðarljósi.

  • Greenfo

Greenfo er stytting á Green Information og hefur það markmið að umbreyta gagnasöfnun, gagnagreiningu og aðferðafræði er varðar sjálfbærni- og loftslagsbókhald fyrirtækja.