Herlögreglan í Brasilíu er þekkt sem ein hæfasta bardagasveit í heimi og jafnvel hörðustu glæpamenn landsins vita að hún er alls ekkert lamb að leika sér við. Herlögreglan á Marajó-eyjunni, sem liggur milli Amasonfljótsins og Atlantshafsins, hefur hins vegar farið skrefinu lengra og vakta nú götur eyjunnar á vatnabufflum (e. water buffalo).

Dýrin vega um 816 kíló að þyngd og geta elt glæpamenn hvort sem þeir flýja lögregluna í gegnum mýri, leirdrullu eða ár og þá sérstaklega á regntímabili eyjunnar.

„Það eru staðir hér þar sem þú kemst ekki á mótorhjóli eða á bát, en þú kemst alltaf þangað á vatnabuffli,“ segir yfirlögregluforinginn Ronaldo Souza meðan hann klappar dýrinu.

Rúmlega 24 þúsund manns búa í brasilíska bænum Soure á norðausturhluta eyjunnar en þar byrja lögreglumennirnir daginn á því að setja á sig skotheld vesti og leðurstígvél og ríða þeir síðan niður götur miðbæjarins á þessum skepnum með skammbyssurnar í hulstri.

Þessi sjón ein og sér nægir til að halda flestum glæpamönnum í skefjum en heimamenn segja að þetta gæti verið eini staðurinn í Brasilíu þar sem hægt er að vera með úr á almannafæri án þess að vera rændur.

Þó að vatnabufflar séu tíð sjón í Suður-Ameríku þá eiga dýrin rætur sínar að rekja til Asíu. Ein vinsæl goðsögn segir að forfeður þessarar skepnu hafi strandað á eyjunni á 19. öld eftir að hafa sloppið úr skipsflaki. Sagan segir að Frakkarnir hafi notað dýrin í hrísgrjónaökrunum í Asíu og sendu þá síðan til Frönsku Gvæjönu í slátrun, en báturinn sökk áður en hann komst á áfangastað.

Vatnabufflarnir þjóna hins vegar ekki bara lögreglunni á Marajó-eyjunni heldur nýta íbúarnir dýrin líka sem leigubíla, sorpbíla og sendiferðabíla. Auk þess að ferja fólk og vörur um eyjuna eru margir veitingastaðir sem bjóða upp á vatnabufflahamborgara og rjómaís sem gerður er úr mjólkinni þeirra.